Gæðingaúrval á Stóðhestaveislu

14. apríl 2011
Fréttir
Oddur frá Selfossi var heiðraður sérstaklega á Stóðhestaveislu í Ölfushöll. Ljósm.: Kolbrún Grétarsdóttir
Sannkallað gæðingaúrval var  til sýnis í þéttsetinni Ölfushöllinni á laugardaginn var þegar stóðhestaveisla Hrossaræktar.is fór fram. Yfir 30 stóðhestar, allt frá ungum ósýndum efnisfolum til margverðlaunaðra kostagripa, komu fram og sýndu snilli sína. Sannkallað gæðingaúrval var  til sýnis í þéttsetinni Ölfushöllinni á laugardaginn var þegar stóðhestaveisla Hrossaræktar.is fór fram. Yfir 30 stóðhestar, allt frá ungum ósýndum efnisfolum til margverðlaunaðra kostagripa, komu fram og sýndu snilli sína.

Höfðinginn Oddur frá Selfossi mætti til leiks ásamt hópi afkomenda sinna og var hann heiðraður fyrir framlag sitt til íslenskrar hrossaræktar. Var sérstaklega gaman að sjá þennan gamla kappa gefa afkomendum sínum ekkert eftir á fljúgandi skeiðsprettum í gegnum höllina undir öruggri stjórn hinnar ungu Dagmarar Einarsdóttur.

Afkvæmi Kletts frá Hvammi og Stála frá Kjarri komu fram, auk þess sem stólpagæðingurinn Eldjárn frá Tjaldhólum mætti ásamt myndarlegum afkvæmahópi. Of langt mál er að telja upp alla þá glæsigripi sem léku listir sínar í veislunni, enda gæðin mikil og vart veikan punkt að finna í þeim atriðum sem upp á var boðið.

Á stóðhestaveislunni var einnig efnt til uppboðs á folatollum og stóðhestahappdrættis og mun ágóðinn af þeirri fjáröflun renna óskipt til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Boðnir voru upp folatollar undir fjóra gæðinga, þá Héðinn frá Feti, Krák frá Blesastöðum, Óm frá Kvistum og Stála frá Kjarri. Er skemmst frá því að segja að uppboðið gekk hreint frábærlega og söfnuðust hvorki meira né minna en 920.000 kr. til málefnisins. Sala á happdrættismiðum gekk einnig feiknavel, enda ríflega 40 folatollar undir marga úrvals stóðhesta í vinning. Happdrættismiðar munu verða áfram til sölu fram að útdrætti 24. apríl og er hægt að nálgast þá í öllum helstu hestavöruverslunum, auk þess sem hægt er að panta miða með því að senda tölvupóst á hrossaraekt@hrossaraekt.is.

Hrossarækt.is vill þakka öllum þeim sem komu að stóðhestaveislunni kærlega fyrir hjálpina og ekki síst þeim stóðhestaeigendum sem gáfu folatolla í uppboð og happdrætti til stuðnings verðugu málefni. Viðtökur við stóðhestaveislum bæði norðan heiða og sunnan sýna að þessir viðburðir eru komnir til að vera.