Fyrsta keppnismót fatlaðra ungmenna í hestaíþróttum

Fyrsta keppnismót fatlaðra ungmenna í hestaíþróttum á Íslandi var haldið núna 27.maí síðastliðinn á vegum Hestamannafélagsins Harðar. Um er að ræða algjört brautryðjenda starf í hestaíþróttum sem og íþróttum fatlaðra. Fyrsta keppnismót fatlaðra ungmenna í hestaíþróttum á Íslandi var haldið núna 27.maí síðastliðinn á vegum Hestamannafélagsins Harðar. Um er að ræða algjört brautryðjenda starf í hestaíþróttum sem og íþróttum fatlaðra.

Í vetur hafa verið haldin alls 6 námskeið fyrir fötluð born og ungmenni á vegum félagsins. Þar sem hestamannafélagið hefur alltaf haft metnað fyrir því sem það tekur sér fyrir hendur ákvað fræðslunefnd fatlaðra í samstarfi við Hestamennt að halda keppnismót.

Fyrirmyndin er tekin frá ýmsum samtökum í Evrópu, Kanada og Ameríku þar sem fimikeppni fyrir fatlaða reiðmenn er orðin vinsæl íþrótt og eru aðilar að International Para-Equestrian Association.  Keppnisreglurnar hafa þó verið aðlagaðar til að standa undir smáu sniði sem við getum boðið upp á. Keppt var í fimikeppni sem snýr að því að keppendur ríða ákveðna reiðleið innan vallar og dæmt er eftir meðal annars tækni, samspil hests og knapa, takt, flæði og notkun vallar. Fengnir voru til liðs 2 dómarar, hún Guðrún Fjelsted reiðkennari frá Borgarnesi og Guðrún úr Dalsseli, en þær hafa báðar margra ára reynslu í reiðkennslu fyrir folk með fötlun.
5 ungmenni tóku þátt í ár og voru þau á aldrinum 13 – 21 árs.

1. Sigtryggur Einar Sævarsson
2. Arnór Freyr Arnarsson
3. Gunnar Logi Tómasson
4. Kristín Hrefna Halldórsdóttir
5. Sonja Sigurðardóttir

Þau sem tóku þátt hafa öll  verið á námskeiðum hjá félaginu í vetur og nú síðast á sérstöku keppnisnámskeiði sem var miðað að því að undirbúa þau fyrir mótið. Flest þeirra höfðu farið á hestbak áður en þá aðallega í formi sjúkraþjálfunar. Þau æfðu öll sama prógrammið en þau eiga flest við mjög ólíkar skerðingar að stríða og hver og einn keppandi keppti á sínum eigin forsendum sem reyndi á einstaklingsbundna getu þeirra.
Allir fengu verðlaun fyrir þátttöku og stigahæsti keppandinn fékk svo áletraðan bikar en í ár var það Kristín Hrefna Halldórsdóttir sem var stigahæsti keppandinn.

Vil óska félaginu og þáttakendunum til hamingju með þetta frábæra mót sem tókst frábærlega vel í alla staði og verður vonandi endurtekið að ári.