Fyrirlestur um geðheilbrigði og næringu hjá U-21 árs landsliðinu

28.06.2019

Miðvikudaginn 26 júni héldu Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir landsliðskonur í knattspyrnu fyrirlestur fyrir U-21 landsliðið um geðheilbrigði og næringu íþróttamanna og hvernig megi tengja þessa þætti saman til að hámarka árangur í íþróttum. Elísa og Margrét Lára eru systur sem hafa lagt metnað sinn í að mennta sig samhliða knattspyrnuferlinum sem og að stofna fjölskyldur. Báðar hafa þær orðið fyrir hindrunum á ferlinum sem hefur leitt til mikils áhuga bæði á næringu og geðheilbrigði. Elísa kláraði BS gráðu í næringarfræði og MS gráðu í matvælafræði og stundar nú MS nám í næringarfræði með sérstaka áherslu á íþróttir. Margrét Lára er íþróttafræðingur og útskrifaðist árið 2018 sem klínískur sálfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík.
Elísa fjallaði meðal annars um það hvernig næring hefur áhrif á úthald og ákvörðunartöku hjá íþróttamönnum, þar á meðal knöpum. Margrét Lára fjallaði um hugræna þætti, eins og stjórn, ábyrgð/skuldbindingu, áskorun og sjálfstraust, sem skipta máli í íþróttum. Þar kom hún inn á mikilvægi þess að einbeita sér að þeim þáttum sem einstaklingur sjálfur hefur stjórn á t.d eigin frammistöðu og ákvörðunum, í stað þess að einbeita sér að einkunum dómara eða öðrum keppendum. Mikilvægi þess að vera tilbúin að skuldbinda sig að markmiðum sínum og leggja á sig það sem þarf til að ná þeim. Öll reynsla er góð reynsla. Og hvernig sjálfstraust hefur áhrif á árangur og íþróttamaður þarf að hafa trú á sjálfum sér og því sem hann er að gera ásamt því að hafa hugrekki til að leita inná við bæði í mótlæti og þegar vel gengur.