Frumtamningakeppni vekur athygli

27. apríl 2009
Fréttir
Hólanemar. Þessi mynd er ekki frá umræddri sýningu.
Aðsókn á hestahátíðina “Tekið til kostanna á Sauðárkróki” var heldur minni en oftast áður. Á það sér ýmsar skýringar og eiga Alþingiskosningarnar án efa stærstan þátt í því. Sýningin gekk þó í heildina vel fyrir sig og kvöldsýningarnar voru stórskemmtilegar að vanda. Það sem vakti þó einna mesta lukku voru sýningar Hólamanna. Bæði keppni í frumtamningum, sem var frumraun, og kennslusýningar skólans. Aðsókn á hestahátíðina “Tekið til kostanna á Sauðárkróki” var heldur minni en oftast áður. Á það sér ýmsar skýringar og eiga Alþingiskosningarnar án efa stærstan þátt í því. Sýningin gekk þó í heildina vel fyrir sig og kvöldsýningarnar voru stórskemmtilegar að vanda. Það sem vakti þó einna mesta lukku voru sýningar Hólamanna. Bæði keppni í frumtamningum, sem var frumraun, og kennslusýningar skólans.


FRUMTAMNINGAKEPPNIN SKEMMTILEG
Guðmundur Sveinsson, tamningamaður og hrossaræktandi á Sauðárkróki, segir að greinilegt sé að menn séu farnir að leggja meiri áherslu á frumtamninguna en áður.

„Ég fylgdist vel með sýningum Hólaskóla. Það var mikill áhugi fyrir þeim og þær fengu gott áhorf. Frumtamningakeppnin var skemmtileg og ég spái vel fyrir henni sem sýningaatriði og keppnisgrein. Hún er áhorfendavæn, ef svo má að orði komast. Sumt af því sem keppendur gerðu á trippunum, sem voru að hámarki tamin í 100 daga, var í rauninni ótrúlegt.

Til dæmis þá var einn tamningamaðurinn með stóran bunka af blöðrum á baki sem hann sprengdi síðan eina af annarri. Trippið haggaðist lítið eða ekkert. Það var líka stórkostlegt að sjá stúlkuna sem vann þessa keppni, þegar hún lét trippið hlaupa laust við hlið sér. Það hljóp með henni, lék og skvetti sér, en vék ekki frá henni og hafði greinilega mjög gaman að. Ég held að það sé óhætt að segja að keppendur hafi náð að undirstrika nafn keppninnar: „Það snýst um traust.“

Mér líst mjög vel á það sem er að gerast á hrossabrautinni á Hólum um þessar mundir. Ég fylgdist líka með kennslusýningunum. Þar var eitt og annað nýtt á ferðinni þótt meginþemað væri það saman. Það stendur hins vegar upp úr að það er greinilegt að menn eru farnir að gefa frumtamningaþættinum meiri gaum en áður. Sem ég tel að sé mjög gott,“ segir Guðmundur Sveinsson.

Þess skal getið að höfundur frumtamningakeppninnar er Eyjólfur Ísólfsson, yfirreiðkennari á Hólaskóla.