Frábær fundur með landsliðinu

19. júní 2013
Fréttir
Heildverslunin Ásbjörn Ólafsson ehf. er einn af samstarfsaðilum íslenska landsliðsins í hestaíþróttum og tóku menn á þeim bænum sannarlega vel á móti landsliðsknöpum og öðrum gestum á fundi sem landsliðsnefnd LH hélt í gær.

Heildverslunin Ásbjörn Ólafsson ehf. er einn af samstarfsaðilum íslenska landsliðsins í hestaíþróttum og tóku menn á þeim bænum sannarlega vel á móti landsliðsknöpum og öðrum gestum á opnum fundi sem landsliðsnefnd LH hélt í gær. 

Ásta Björnsdóttir einn af eigendum heildverslunarinnar bauð gesti velkomna og stiklaði á stóru um sögu fyrirtækisins og þau vörumerki sem þau eru með, en meðal þeirra er einmitt Kerckhaert skeifur sem fara stækkandi á markaði hér á landi enda úrvalsvara þar á ferð. Ásta og co buðu uppá dýrindis kræsingar sem runnu ljúft ofan í svanga gestina.

Hafliði Halldórsson liðsstjóri ávarpaði gesti og kynnti val á fjórða ungmenninu inn í liðið en það er hinn knái skeiðknapi úr Fáki Konráð Valur Sveinsson. Konráð sigraði 100m skeiðið á Gullmótinu um liðna helgi á Þórdísi frá Lækjarbotnum á tímanum 7,46 sek. sem er sannarlega glæsilegur tími. Til hamingju Konráð Valur! Hafliði kynnti einnig samstarfsfólk sitt en þjálfari liðsins verður Rúna Einarsdóttir og Sigurður Sæmundsson er og verður Hafliða innan handar við að stýra liðinu. 

Guðmundur Guðmundsson handboltaþjálfari hélt mjög mikilvægan og fróðlegan fyrirlestur um þjálfun liðs, mikilvægi samstilltrar liðsheildar og markmiðasetningu. Mjög gott erindi hjá fyrrum landsliðsþjálfaranum okkar í handbolta, enda lætur árangurinn ekki á sér standa hjá honum. 

Sigurður Sæmundsson fyrrum liðsstjór íslenska landsliðsins í hestaíþróttum flutti einnig afar gott erindi sem hann kallaði "Leiðin að gullinu". Siggi Sæm er eins og allir vita, hokinn af reynslu af stórmótum og kann mörg trixin til að halda öllu og öllum í góðum gír.