Frá Samgöngunefnd

29. júní 2010
Fréttir
Sem flestum er kunnugt þá hafa verið mikil skrif í fjölmiðlum að undanförnu og einnig verið umfjallanir í ljósvakamiðlum vegna verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs og full ástæða verið til. Sem flestum er kunnugt þá hafa verið mikil skrif í fjölmiðlum að undanförnu og einnig verið umfjallanir í ljósvakamiðlum vegna verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs og full ástæða verið til. Hæst hefur heyrst í jeppaklúbbnun 4X4 og Skotvís, en til stendur að loka mörgum slóðum, takmarka umferð um aðra, banna hestaumferð á stórum köflum innan þjóðgarðsins, takmarka og banna skotveiðar, tjöldun ofl. ofl. LH hefur einnig sent frá sér kröftug mótmæli vegna verndaráætlunarinnar, einnig hefur stuðningur við okkur borist frá SAMÚT sem eru samtök útivistahópa. LH hefur gert sig gildandi innan SAMÚT undanfarið og hefur Þorvarður Helgason ( Þorri  ) í varastjórn LH verið kosinn í stjórn og framkvæmdaráð SAMÚT.

Eftirfarandi athugasemdir eru gerðar við verndaráætlunina:
Athugasemdir Landssambands hestamannafélaga vegna stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs, náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Tillaga maí 2010.
Landssamband hestamannafélaga gerir eftirfarandi athugasemdir og harmar að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs skuli ekki hafa haft samráð við samtök hestamanna við undirbúning verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í kaflanum um samgöngur 9.3.4 reiðleiðir; eru nefndar þær reiðleiðir sem för er heimil um. Landssamband hestamannafélaga gerir alvarlegar athugasemdir við að margar fornar reiðleiðir / þjóðleiðir skuli ekki vera skilgreindar sem slíkar innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Einkum á það við um norður- og vestursvæði. Vonarskarð, það er algerlega óásættanlegt að ríðandi umferð eigi að banna um Bárðargötu, forn leið kennd við Bárð þann er Bárðardalur er nefndur eftir og er kunn frá árdögum Íslandsbyggðar. Hvaða rök liggja hér að baki?
Skilgreina þarf eftirtaldar leiðir sem reiðleiðir:
Frá Gjallanda í Vonarskarð, úr Vonarskarði að Svarthöfða og áfram í Jökulheima. Frá Svarthöfða og vestur fyrir Hágöngulón, skilgreina þarf einnig reiðleið úr Nýjadal í Vonarskarð. Þá vantar að skilgreina Gæsavatnaleið sem reiðleið þ.e. frá Gjallanda um Urðarháls, Flæður, Dyngjusand og að reiðleið við Upptyppinga, einnig vantar reiðleið frá Flæðum í Dyngjufjalladal þaðan í Suðurárbotna og að reiðleiðum við Svartárkot. Þær leiðir sem hér eru nefndar hafa verið farnar af ríðandi fólki allt frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Á síðustu öld fóru bílar að fikra sig eftir fornum reiðslóðum bæði í byggð og á hálendinu og breyta sumum þeirra í ökuslóða, einkum upp úr miðri síðustu öld. Á norðursvæði eru ekki eru gerðar athugasemdir við reiðleiðir um Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi.
Á austursvæði er skilgreind reiðleið, Fljótsdalur – Sauðárkofi, um Laugafell og Fjallaskarð inn Vesturöræfi þessi reiðleið endar við Hálslón, skilgreina þarf áframhald leiðarinnar til norðurs með Hálslóni að Kárahnjúkum.
Ekki eru gerðar athugasemdir við reiðleiðir á suðursvæði, en þó er áskilinn réttur til þess ef af stækkun þjóðgarðsins verður á því svæði, sem heyrst hefur að áform séu um.
Áningastaði / skiptihólf þarf að skilgreina með um 8 – 10 km. millibili við reiðleiðirnar eða eftir því  sem aðstæður leyfa á hverjum stað.

Landssamband hestamannafélaga hafnar þeirri ákvörðun að leyfi þjóðgarðsvarða þurfi til, ef um stærri hópa en 20 hesta er að ræða. Með 20 hesta hópi eru 4 -5 manneskjur, en ætla þarf um 3 -5 hesta á mann í lengri hestaferðum, ásættanlegt væri að leyfi þjóðgarðsvarðar þyrfti fyrir 40 – 50 hesta hópum og stærri.
Landssamband hestamannafélaga bendir á að hestamenn eru unnendur íslenskrar náttúru og til í að víkja með sína umferð, misbjóði hún náttúrulegri flóru landsins með þeirri umferð sem ástundunin í dag hefur í för með sér. Hestamenn hafa t.d. vikið frá Búrfellsgjá, Gjárétt, Arnarfellsmúla og Þjófadölum með sína umferð, svo dæmi séu nefnd. En við gerum þó kröfu um aðgang að útivistarsvæðum, rétt eins og aðrir útivistarhópar.
Landssamband hestamannafélaga vekur athygli á að hestamenn hafi ávallt lagt áherslu á góða umgengni við náttúru landsins. Reynslan sýnir að hestar og hestamenn hafa í áranna rás búið í góðri sambúð við náttúruna. Hestamenn vara hins vegar við þeim viðhorfum sem vilja takmarka aðgang hestamanna að mikilvægum ferðamannastöðum og helstu náttúruperlum. Verði slík viðhorf ráðandi mun það leiða til takmarkaðra möguleika almennings til þess að njóta íslenskrar náttúru. Um leið mun það setja því fólki og þeim fyrirtækjum sem stunda skipulagðar hestaferðir um landið, jafnt fyrir útlendinga sem íslendinga, miklar takmarkanir á sinni starfssemi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Það er engum betur ljóst en þessum aðilum hversu mikilvægt það er að umgangast náttúruna af nærgætni og virðingu.
Landssamband hestamannafélaga vekur athygli á þeim tekjum sem hestamennska og hestatengd ferðaþjónusta er að skapa þjóðarbúinu, en þær eru ætlaðar 25 -30 milljarðar kr. á ársgrundvelli.

Athugasemdir frá SAMÚT:
Samtök útivistarfélaga, SAMÚT, fjallaði um framkomin drög að verndaráæltun Vatnajökulsþjóðgarðs á fundi sínum þann 10. þessa mánaðar.  Samtökin vilja gera athugasemd við eftirfarandi atriði í áætluninni.
Athugasemdir varðandi reglur um tjöldun
Í fyrirliggjandi tillögu að verndaráætlun segir:
“Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er fólki sem ferðast fótgangandi með allan farangur sinn þó heimilt að tjalda hefðbundnum göngutjöldum til einnar nætur. Hópar göngumanna þar sem eru 10 tjöld eða fleiri þurfa þó leyfi þjóðgarðsvarðar. Ef jörð er snævi þakin eða frosin er heimilt að tjalda í þjóðgarðinum þótt tjaldsvæði hafi ekki verið sérstaklega afmörkuð eða merkt. Við tjöldun utan skipulagðra tjaldsvæða skal þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi og jafnframt skal taka allt sorp og úrgang til byggða”.
Í megin dráttum eru hér settar fram skynsamlegar reglur en þó verður að teljast óeðlilegt og óþarft með öllu að mismunandi reglur gildi eftir því hvaða ferðamáta ferðamenn nýta sér.  Þeim sem ferðasta akandi eða ferðast gangandi og nýta sér trúss eru settar strangari skorður en þeim sem ferðast í svonefndum bakpokaferðum.  Vatnajökulsþjóðgarður er víðfemt svæði og skipulögð tjaldsvæði ekki mörg.  Náttúrfar á stórum svæðum þjóðgarðsins er með þeim hætti að gróðri stafar ekki hætta af því þó ferðamenn slái upp tjöldum, svo fremur sem öðrum reglum sem þarna eru varðandi umgengni sé fylgt. Auk þess er stjórn þjóðgarðsins heimilt skv. næstu málsgrein að setja sérreglur á einstökum svæðum ef þörf krefur vegna náttúruverndar.
Þó svo mögulegt sé í flestum tilfellum að ná akandi á skipulagt tjaldsvæði þá skiptir það ferðamenn máli að geta gefið sér tíma til skoða náttúruna og njóta,frekar en keppast við að ná á milli tjaldsvæða.  Auk þess gerir þessa regla áhugaverðar trússferðir um stór svæði þjóðgarðsins óframkvæmanlegar.  Óeðlilegt er að reglur feli í sér mismunun grundvallaða á því hvernig fólk skipuleggur ferðalög sín.
SAMÚT leggur því til að fyrstu setningu málsgreinarinnar verði breytt og verði svohljóðandi:
“Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er fólki heimilt að tjalda hefðbundnum tjöldum til einnar nætur.”
Athugasemdir varðandi reglur um skotveiðar
SAMÚT leggst gegn þeim takmörkunum á veiðum villtra dýra og fugla innan Vatnajökulsþjóðgarðs sem boðaðar eru í tillögu að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Engin haldbær rök hafa komið fram sem styðja tillögur um breytingar á veiðunum á umræddu svæði, en veiðarnar hafa verið stundaðar á sjálfbæran hátt fram til þessa.
Til að koma á móts við áformaðar ferðir skólahópa um svæðið á veiðitíma leggur SAMÚT til að þjóðgarðsráði verði heimilað að loka svæðum tímabundið, t.d. í 24 tíma í senn, til að forðast hugsanlega árekstra. Umrædd svæði geti verið 20 km2 að flatarmáli en þjóðgarðsvörður hafi heimild til slíkra lokana að höfðu samráði við veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar.
Að öðru leyti leggst SAMÚT alfarið gegn þeim breytingum sem eru kynntar í tillögunni enda sýnt að þær muni aðeins skapa misskilning um hvar og hvenær megi veiða á hálendinu norðan Vatnajökuls. Samkvæmt tillögunum verður réttindum útivistarhópa mismunað en það getur SAMÚT alls ekki samþykkt.
Athugasemdir varðandi reglur um reiðleiðir:
SAMÚT tekur undir athugasemdir Landssambands hestamanna við að margar fornar reiðleiðir / þjóðleiðir skuli ekki vera skilgreindar sem slíkar innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. 
Þar er vísað sérstaklega til Vonarskarðs og verður ekki séð að nauðsyn krefji á um að loka Vonarskarði fyrir hestaumferð.
Skilgreina þarf eftirtaldar leiðir sem reiðleiðir:
Frá Gjallanda í Vonarskarð, úr Vonarskarði að Svarthöfða og áfram í Jökulheima. Frá Svarthöfða og vestur fyrir Hágöngulón, skilgreina þarf einnig reiðleið úr Nýjadal í Vonarskarð. Þá vantar að skilgreina Gæsavatnaleið sem reiðleið þ.e. frá Gjallanda um Urðarháls, Flæður, Dyngjusand og að reiðleið við Upptyppinga, einnig vantar reiðleið frá Flæðum í Dyngjufjalladal þaðan í Suðurárbotna og að reiðleiðum við Svartárkot. Þær leiðir sem hér eru nefndar hafa verið farnar af ríðandi fólki allt frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar.
Á austursvæði er skilgreind reiðleið, Fljótsdalur – Sauðárkofi, um Laugafell og Fjallaskarð inn Vesturöræfi þessi reiðleið endar við Hálslón, skilgreina þarf áframhald leiðarinnar til norðurs með Hálslóni að Kárahnjúkum.
Áningastaði / skiptihólf þarf að skilgreina með um 8 – 10 km. millibili við reiðleiðirnar eða eftir því  sem aðstæður leyfa á hverjum stað.
SAMÚT tekur undir þá skoðun Landssambands hestamanna að viðmið  varðandi stærð hestahópa sem fara megi um svæðið án sérstaks leyfis þjóðgarðsvarða sé of lágt, en þar er miðað við stærri hópa en 20 hesta.  Tillaga LH um að miðað sé við 40 – 50 hesta hópa og stærri er vel ásættanleg að mati SAMÚT.
Þá er það álit SAMÚT að leiðir á hálendi sem ætlaðar eru til aksturs séu almennt opnar fyrir hestaumferð og ekki rök fyrir öðru en að það gildi innan þjóðgarðsins
Athugasemdir varðandi akstursleiðir.
SAMÚT telur að sú almenna regla skuli gilda að ferðafólki sé heimil för akandi eða ríðandi um vegi og slóða sem þurfa að vera opnir vegna sérstakra nota, eftir því sem við verður komið.  Þetta eigi við um vegi vegna orkuframkvæmda, landbúnaðar eða aðrar leiðir þar sem þörf er á viðvarandi vegum.
Um veg inn Heinabergsdal segir eftirfarandi í skilmálum:
Umferð vélknúinna ökutækja um veginn er aðeins heimil smalamönnum, hreindýraveiðimönnum og ferðaþjónustuaðilum sem þurfa að aðstoða gönguhópa í skipulögðum ferðum samkvæmt fyrir fram útgefinni ferðaáætlun.

SAMÚT leggur til að vegur inn Heinabergsdal verði opinn fyrir almennri umferð ferðamann.  Ekki er ástæða til að búast við mikilli umferð um umræddan veg, enda sé vegurinn aðeins fær jeppum.  Með því að hafa veginn opin fyrir almennum ferðamönnum og gestum þjóðgarðsins opnast möguleikar á dagsgöngum inn í Vatnsdal og upp að Humarkló, hvor tveggja mjög áhugaverðar gönguleiðir.  Þannig væri fleirum gert mögulegt að njóta þeirrar náttúru sem þar er að finna og hlýtur það að vera í samræmi við markmið og stefnu þjóðgarðsins.
SAMÚT leggur til að leiðin inn við Blæng verði opin fyrir umferð en merkt sem torleið.  Mögulega er ástæða til að þessi leið opni síðar á vorin en aðrar leiðir á svæðinu.  Með þessari leið opnast áhugaverð hringleið og er það ævinlega til bóta fyrir ferðamenn.

Þá leggur SAMÚT til að vegur inn að jökli hjá Snæfelli um Maríutungur verði bættur með þeim hætti að hann verði frostfrír og lift upp úr krapalægðum þar sem þörf krefur.  Ekki er mælt með að settur verði uppbyggður vegur heldur aðeins tryggt að hann verði alls staðar örlítið yfir landinu í kring og fyllt upp í dýpstu lægðir.  Þannig er hægt að bæta aðgengi að jöklinum á þessum stað án mikillar röskunar á landslagi.

Halldór H. Halldórsson
Samgöngunefnd LH