Formannafundur LH og 70 ára afmæli LH

01. nóvember 2019
Fréttir
Fyrrverandi og núverandi formenn LH. Efri röð frá vinstri: Haraldur Þórarinsson, Jón Albert Sigurbjörnsson, Lárus Ástmar Hannesson. Neðri röð frá vinstri: Leifur Kr. Jóhannesson, Kári Arnórsson, Guðmundur Jónsson og Birgir Sigurjónsson.

Formannafundur LH var haldinn 1. nóvember í Íþróttamiðstöðinni í Laugardalnum. Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum hestamannafélaga um allt land. Mesti þungi umræðna á fundinum var um nýliðun, æskulýðsstarf og félagshesthús.

Auður Ásgrímsdóttir og Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir umsjónarmenn félagshesthússins hjá Hestamannafélaginu Sörla kynntu starfsemi þess. Félagshesthúsin hafa reynst vera afar árangursrík leið til nýliðunar, börn sem stíga sín fyrstu skref í hestamennsku í félagshestúsum hafa mörg hver eignast sinn eiginn hest í kjölfarið og jafnvel dregið fjölskylduna með í hestamennskuna.

Karen Woodrow og Sif Jónsdóttir kynntu þrepaskipt æfingakerfi í hestaíþróttum fyrir 6-12 ára sem þær hafa þróað og er hugsað sem kerfi til að halda utan um og gera æfingar yngri barna markvissari.

Æskulýðsbikar LH hlaut Hestamannafélagið Geysir að þessu sinni fyrir öflugt æskulýðsstarf á árinu og veitti Katrín Sigurðardóttir bikarnum viðtöku fyrir hönd Geysis.

LH hefur auglýst eftir umsóknum um að halda Íslandsmót 2020 og 2021. Hestamannafélagið Sleipnir mun halda Íslandsmót barna og unglinga árið 2020 og níu hestamannafélög á norður- og norðvesturlandi munu halda í sameiningu Íslandsmót fullorðinna og ungmenna árið 2021 á Hólum í Hjaltadal. Enginn hefur sótt um að halda Íslandsmót fullorðinna og ungmenna árið 2020.

Landssamband hestamannafélaga er 70 ára um þessar mundir og í tilefni þess var öllum núlifandi fyrrverandi formönnum boðið á fundinn, það eru þeir Leifur Kr. Jóhannesson formaður árin 1986-1988, Kári Arnórsson formaður árin 1988-1994, Guðmundur Jónsson formaður árin 1994-1996, Birgir Sigurjónsson formaður árin 1996-1998, Jón Albert Sigurbjörnsson formaður árin 1998-2006 og Haraldur Þórarinsson formaður árin 2006-2014. Kári Arnórsson stiklaði á stóru um 70 ára sögu LH.  Að lokum gæddu fundargestir sér á dýrindis köku í tilefni afmælisins.

Athygli er vakin á því að skýrslur nefnda eru aðgengilegar á vef LH hér.