Fleiri fráir folar

29. mars 2012
Fréttir
Mynd: Hæfileikahesturinn Snævar Þór frá Eystra-Fróðholti. Ljósm.: KollaGr
Áfram höldum við að kynna stóðhesta sem mæta til veisluhaldanna á Sauðárkróki á laugardagskvöldið. Höfðinginn Klængur frá Skálakoti mætir með nýjum knapa og leikur listir sínar. Áfram höldum við að kynna stóðhesta sem mæta til veisluhaldanna á Sauðárkróki á laugardagskvöldið. Höfðinginn Klængur frá Skálakoti mætir með nýjum knapa og leikur listir sínar.


Klængur hlaut á sínum tíma 9.0 fyrir tölt, brokk, stökk, vilja/geð og fegurð í reið, mikill gæðingur þar á ferð. Þá mætir rýmishesturinn Kaspar frá Kommu sem og Arnar frá Blesastöðum 2A, en báðir þessir hestar voru í fremstu röð í gæðingakeppninni á LM síðasta sumar.

Vatnsleysubúið mætir með fótaburðarflota til leiks, við kynnum þann fyrsta í dag en sá ber nafnið Sjarmi frá Vatnsleysu undan hinum eina sanna Glampa frá sama stað. Búast má við sveiflu af sverari sortinni þar!

Snævar-Þór frá Eystra-Fróðholti mætir að sunnan, en þessi gráskjótti gæðingur hlaut hvorki meira né minna en 8,61 fyrir hæfileika í dómi í fyrra. Svo er það Svikahrappurinn frá Borgarnesi, sá er sagður hafa hlotið nafngiftina þegar liturinn sveik, en hann er sonur hins litfagra Glyms frá Innri-Skeljabrekku. Svikahrappur ku hins vegar ekki svíkja þegar að hæfileikunum kemur og verður gaman að sjá þennan son Glyms á gólfinu, en Glymur sjálfur gerir það nú gott á erlendri grundu.

Eyfirðingar taka að sjálfsögðu þátt í veislunni og þaðan koma m.a. þeir Öngull frá Efri-Rauðalæk og Bergsteinn frá Akureyri. Öngull er undan gæðingamóðurinni Sögu frá Þverá í Skíðadal og Króki nokkrum frá Efri-Rauðalæk sem gert hefur það gott á keppnisvellinum í Evrópu. Hágangssonurinn Bergsteinn er hins vegar undan Baldursdóttur, sérlega prúður og efnilegur öðlingshestur.

Og síðastur en alls ekki sístur er svo hinn fasmikli Loki frá Selfossi sem nýta kann gólfplássið í höllinni og mun án efa gleðja áhorfendur með góðum tilþrifum.

Forsala á Stóðhestaveisluna á Sauðárkróki er í fullum gangi hjá N1 í Staðarskála, á Blönduósi, á Sauðárkróki og við Hörgárbraut á Akureyri. Miðaverð er kr. 3.000 í forsölu, en kr. 3.500 við innganginn. Forsölu lýkur um hádegi á laugardag.