Fjölmenni kynnti sér aðstöðuna á Hólum

28. september 2015
Fréttir

Mikill fjöldi góðra gesta sóttu Hóla heim síðasta laugardag, að lokinni Laufsskálarétt, til að skoða nýja og glæsilega aðstöðu sem þar hefur verið byggð fyrir komandi Landsmót hestamanna og fyrir Háskólann á Hólum.

Skipuleggjendur Landsmóts buðu heim að Hólum, hestamannafélögin í Skagafirði buðu upp á dýrindis kjötsúpu, lifandi tónlist var á boðstólnum og veðrið lék við gesti.

Fulltrúar hestamannafélaganna í Skagafirði, sem senn verða sameinuð í eitt, riðu svo ásamt nýkrýndum heimsmeistara í tölti Kristínu Lárusdóttur, inn á nýjan keppnisvöll með fána.  Þá héldu þeir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands og Lárus Ástmar Hannesson formaður Landssambands hestamannafélaga stutt ávörp.  Meðal þess sem fram kom í máli þeirra voru þakkir til þeirra sem staðið hafa af uppbyggingu svæðisins, ekki síst fulltrúa Háskólans á Hólum og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.  Þá lögðu þeir áherslu á að með hagstæðu miðaverði í forsölu sé lögð áhersla á að Landsmót sé viðburður fyrir alla fjölskylduna.  Miðaverð í forsölu er einkar hagstætt fram til áramóta og miðaverð til ungmenna hefur verið lækkað frá síðustu mótum.  Miðasala fer betur af stað en nokkru sinni fyrr og góður gangur er í skipulagi mótsins.

Ekki var annað að heyra á gestum sem sóttu Landsmótssvæðið á Hólum heim um helgina en að þeim litist vel á svæðið og mikil eftirvænting virðist ríkja gagnvart því að Landsmót komi nú aftur heim að Hólum, fimmtíu árum eftir að það var haldið þar síðast.

Miðasalan er í fullum gangi á landsmot.is og tix.is