Fjöldi kemur ríðandi á Kaldármela

Á Snæfellsnesi eru margar frábærar reiðleiðir
Á Snæfellsnesi eru margar frábærar reiðleiðir
,,Það virðist vera mikill áhugi á því að koma ríðandi á Fjórðungsmót“ segir Eyþór J. Gíslason, formaður framkvæmdanefndar FM 2009. ,,Ég hef haft spurnir af þó nokkuð mörgum hópum sem eru að koma ríðandi, bæði að sunnan og norðan úr landi". ,,Það virðist vera mikill áhugi á því að koma ríðandi á Fjórðungsmót“ segir Eyþór J. Gíslason, formaður framkvæmdanefndar FM 2009. ,,Ég hef haft spurnir af þó nokkuð mörgum hópum sem eru að koma ríðandi, bæði að sunnan og norðan úr landi".

Staðsetning FM 2009 er enda vel til þess fallin að koma ríðandi á Kaldármela, í nágrenninu eru frábærar reiðleiðir. Að sögn Eyþórs virðist einnig vera mikill áhugi fyrir fjörureiðinni á Löngufjörur á föstudagskvöldinu.

Eyþór, sem jafnframt er formaður Glaðs í Dalasýslu, hefur ásamt fjölda annarra, haft í nógu að snúast undanfarið við skipulagningu FM 2009.  Segir hann undirbúning hafa gengið vel. Framkvæmdum við svæðið er lokið en þær fólust m.a. í því að búið er að laga hringvöllinn með því að breikka hann og lagfæra beygjur.  Keyrð var möl á kynbótabrautina og hún hækkuð með nýju lagi.

„Við vorum að ljúka við að tengja vatn á fjölskyldutjaldsvæðið og kvosin býður bara eftir dynjandi dansleik með Ingó og Veðurguðunum og þeim Matta og Draugabönunum.  Trúbadorar munu einnig skapa stemningu í  veitingatjaldinu öll kvöld. Þetta er allt að verða klárt og svæðið að mestu tilbúið.  Ég get samt ekki sagt að við sitjum hér með hendur í skauti og bíðum eftir gestunum“ segir Eyþór og hlær við „enn er í nógu að snúast, eins og gengur, en þetta er allt að koma“.

Risaskjá verður komið fyrir á svæðinu og að sögn Eyþórs verður hann vel nýttur með góðri upplýsingagjöf til gesta.  Tjaldstæði eru innifalin í miðaverði og þess má geta að 100 manna stúku verður komið fyrir á svæðinu og geta gestir nýtt sér hana að vild, sér að kostnaðarlausu.

 „Það er mjög ánægjulegt að Norðlendingar séu að bætast í hóp þátttakenda á FM 2009“ segir Eyþór, formaður framkvæmdanefndar FM 2009 og segir í lokin að hann skynji rífandi stemningu hestamanna fyrir mótinu á Kaldármelum í næstu viku.