Fjölbreytt og fróðleg sýnikennsla Þórarins

12. nóvember 2009
Fréttir
Félag Tamningamanna í samstarfi við hestamannafélagið Skugga í Borgarnesi stóð fyrir sýnikennslu með Þórarni Eymundssyni tamningameistara FT í reiðhöllinni í Borgarnesi í gærkvöld, miðvikudaginn 11.nóv. Sýnikennslan var gríðarlega vel sótt en um 250 manns mættu í nýja og glæsilega reiðhöll Borgnesinga. Félag Tamningamanna í samstarfi við hestamannafélagið Skugga í Borgarnesi stóð fyrir sýnikennslu með Þórarni Eymundssyni tamningameistara FT í reiðhöllinni í Borgarnesi í gærkvöld, miðvikudaginn 11.nóv. Sýnikennslan var gríðarlega vel sótt en um 250 manns mættu í nýja og glæsilega reiðhöll Borgnesinga. Þórarinn kom vel fyrir, var skipulagður og nákvæmur með skemmtileg hross. Hann byrjaði sýnikennsluna með 4v. hryssu sem mjög gaman var að horfa á vegna þess hversu mjúk og samvinnuþýð hún var. Ung og lítið tamin hryssa sem greinilega bar mikið traust til þjálfara síns. Þórarinn lagði áherslu á að knapinn ætti ekki að þvinga hrossið til eins eða neins heldur að leggja ákveðna hluti til og fá samþykki hestsins. Þórarinn minnti sýningargesti á hversu óþolinmóð mannskepnan getur verið og helst þyrfti allt að vera fullkomið       – í gær!
Þórarinn kom með marga góða punkta, m.a. að knapinn yrði að læra að segja ekki neitt áður en hann gæti farið að gefa hestinum ábendingar, hesturinn yrði aldrei betri en knapinn og hvernig hægt væri að auka rými á brokki með stígandi ásetu. Því næst kom Þórarinn fram með 7v. hryssu sem hann hafði aldrei séð áður. Gaman var að fylgjast með hvernig hann vann með óþekkt hross og gaf ráðleggingar varðandi þjálfun þess.  Að lokum kom Þórarinn fram með hryssuna Þóru frá Prestbæ. Hann lýsti henni sem viljugum og skapmiklum gæðingi sem oft hefði reynt á sig sem tamningamann. Þórarinn sagði frá raunverulegum dæmum úr sinni þjálfun og hvernig hann hefði tekist á við þau. Það hlaut góðan hljómgrunn meðal sýningargesta og gaman var að heyra að jafnvel tamningameistarar lenda í vandræðum með þjálfun sinna hrossa.
Fjölbreytt og fróðleg sýnikennsla hjá Þórarni Eymundssyni sem tókst í alla staði mjög vel.

Félag Tamningamanna þakkar Skuggamönnum fyrir samstarfið og vonandi verður framhald þar á.

Næsta sýnikennsla verður í desember en þá mun Ísólfur Líndal Þórisson reiðkennari mæta í höfuðborgina.
Nánar auglýst síðar.