Fjögur ungmenni keppa á heimsmeistaramóti í Trec

Fjögur íslensk ungmenni kepptu á heimsmeistaramótinu í Trec, sem fram fór í Frakklandi í september. Þátttaka Íslands í keppninni er liður í samstarfsverkefni LH og landbúnaðarráðuneytisins, sem miðar að því að auka veg íslenska hestsins í Frakklandi. Fjögur íslensk ungmenni kepptu á heimsmeistaramótinu í Trec, sem fram fór í Frakklandi í september. Þátttaka Íslands í keppninni er liður í samstarfsverkefni LH og landbúnaðarráðuneytisins, sem miðar að því að auka veg íslenska hestsins í Frakklandi.

 

Fjögur íslensk ungmenni kepptu á heimsmeistaramótinu í Trec, sem fram fór í Frakklandi í september. Þátttaka Íslands í keppninni er liður í samstarfsverkefni LH og landbúnaðarráðuneytisins, sem miðar að því að auka veg íslenska hestsins í Frakklandi.

 

Trec keppnin er tvíhliða. Annars vegar 35 km þolreið (ratleikur) og þrautakeppni, og hins vegar keppni í kerruakstri. Í þolreiðinni þarf keppandinn að nota áttavita og kort til að rata rétta leið jafnframt því að leysa ýmsar þrautir á leiðinni. Þrautakeppninni svipar nokkuð til Smalakeppninnar sem við þekkjum úr Meistaradeild VÍS, en er þó fjölbreyttari. Keppt er í tveimur flokkum í þolreiðinni og þrautakeppninni, fullorðinsflokki og ungmennaflokki. Íslensku ungmennin kepptu upp fyrir sig, eins og sagt er, kepptu í flokki fullorðinna. Þessir fræknu knapar eru Margrét Freyja Sigurðardóttir, Helga Una Björnsdóttir, Steinn Haukur Hauksson og Guðbjartur Þór Stefánsson.

 

Áttaviti og innsiglaðir farsímar

Krakkarnir þurftu að tileinka sér ýmsa nýja hluti sem nauðsynlegir eru í ratleiknum. Til dæmis að læra á áttavita og reikna út hve hesturinn fer marga metra í ákveðnum fjölda skrefa á gangtegundunum; feti, brokki og stökki. Öll voru þau sammála um að Trec keppnin hafi verið skemmtilega reynsla sem þau hefðu ekki viljað missa af. Þau töldu þó hæpið að ratleikurinn, eða þolreiðin, næði vinsældum ef keppnin yrði tekin upp á Íslandi. Í fyrsta lagi vanti skóginn til að rata í, og í öðru lagi sé erfitt að koma því þannig fyrir að áhorfendur geti fylgst með ef um slíkt væri að ræða. Í ratleiknum mega áhorfendur ekki fara inn á svæðið þar sem keppnin fer fram. Farsímar eru innsiglaðir. Keppendur eru einir síns liðs og þurfa að treysta á hyggjuvitið og kompásinn. Enginn má horfa á nema dómarar og starfsmenn.

 

Þrautakeppnin skemmtileg

„Þrautakeppnin var mjög skemmtileg, ég hefði alveg getað hugsað mér að fara annan hring þegar ég var búin með allar þrautirnar,\" sagði Helga Una þegar hún var spurð um hvað henni hefði þótt skemmtilegast. Hin tóku í sama streng. Og ekki fór á milli mála að þau skemmtu sér konunglega þær tvær vikur sem þau dvöldu í Frakklandi: Góður liðsandi, góður matur, vingjarnlegt fólk og fallegt umhverfi.

Á efri myndinni eru Steinn Haukur Hauksson og Margrét Freyja Sigurðardóttir að ná landi eftir sögulegan endi í ratleiknum, þar sem þau villtust eftir að þau komu í mark. Anna Valdimarsdóttir, liðstjóri, og Ken Poste, þjálfari, fagna skjólstæðingum sínum.

Á neðri myndinni eru Guðlaugur Þór Stefánsson og Helga Una Björnsdóttir komin í mark eftir langa útivist í skóginum. Ískalt Kóka kóla var efst á óskalistanum.