FEIF fréttir

04. desember 2013
Fréttir
FEIF sendir reglulega út fréttabréf í tölvupósti og það sem helst er að frétta af þeim vígstöðvum er það að danski knapinn Trine Risvang hlaut viðurkenningu sambandsins fyrir góða og prúða reiðmennsku.

FEIF sendir reglulega út fréttabréf í tölvupósti og það sem helst er að frétta af þeim vígstöðvum er það að danski knapinn Trine Risvang hlaut viðurkenningu sambandsins fyrir góða og prúða reiðmennsku. Trine er vel að viðurkenningunni komin og hlaut tilnefningar frá 9 alþjóðlegum dómurum á 5 mismunandi WR mótum í ár. 

Okkar maður Jakob Svavar Sigurðsson var annar í þessu vali, hlaut 6 tilnefningar á 4 mismunandi WR mótum og þriðja varð hin þýska Frauke Schenzel með 5 tilnefningar á 3 WR mótum. Flottur árangur hjá góðum knöpum.

FEIF tilkynnir að það land sem hlýtur verðlaun fyrir gott æskulýðsstarf muni fá aukapláss fyrir þátttakanda á FEIF Youth Cup á Hólum 2014. Verðlaunin verða veitt á FEIF ráðstefnunni í Reykjavík í febrúar 2014. 

Síðasti WR viðburðurinn á þessu ári var haldinn í Bandaríkjunum 20. október s.l. og um það leyti voru aðildarlönd FEIF beðinn um að sækja um WR mót fyrir næsta ár, 2014. Árið 2013 héldu 14 lönd 87 WR mót, 7502 einkunnir og tímar fóru inn á WR-listana og voru skráðir á um 1600 knapa. Fleiri tölfræðiupplýsingar má finna vef FEIF.