Farsinn heldur áfram

08. desember 2014

Undirritaður, áhugamaður um framþróun hestamennsku á Íslandi öllu, bar miklar væntingar til nýrrar stjórnar LH. Treysti ég á að ný stjórn tæki upp faglegri vinnubrögð en sú fráfarandi með lög og reglur LH að leiðarljósi. Vonbrigðin voru því mikil þegar stjórnin gaf út fréttatilkynningu um að verða við beiðni Gullhyls  um breytt staðarval á Landsmóti hestamanna 2016 og að móts­staðurinn verður færður frá Vindheimamelum og heim að Hólum í Hjaltadal. 

Rétt er að benda nýrri stjórn á tvö atriði úr lögum og reglum LH, en þar segir í gr. 1.2.2 „Landsþing fer með æðsta vald í málefnum LH. ...” og í grein 6.1 um ákvörðun um val á landsmótsstað segir: „... Skal ákvörðun um mótsstað liggja fyrir a.m.k. fimm árum fyrir það mót sem um ræðir. Samningar skulu vera frágengnir og undirritaðir minnst þremur árum áður. Ef samningar nást ekki skal staðarval endurskoðað. ...”

Seinni tilvitnunin er breyting sem var samþykkt á ársþingi LH á Kirkjubæjarklaustri haustið 2008. Sú breyting var gerð til að veita stjórn aðhald við staðarvalið og koma meiri festu og ró á við val á landsmótsstöðum. Þannig eiga ætíð að liggja fyrir tveir eða þrír næstu landsmótsstaðir og nýir staðir eins og t.d. hjá Spretti, Akureyri, eða á Hólum hafa möguleika á að verða fyrir valinu og hafa þá tvö ár til að sannfæra stjórn um að svæðið muni uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma til landsmótsstaðar. Gangi það ekki eftir er hægt að grípa inn í og finna annan stað en þó er alltaf gert ráð fyrir að það sé gert með þriggja ára fyrirvara. Það er því alls óviðunandi að velja Hóla nú og ef ekki er hægt að standa við það sem Gullhylur bauð á sínum tíma, þó þeir hafi gleymt að sækja um á réttum tíma, þá tel ég rétt að ræða við aðra þá sem buðu fram aðstöðu á meðan á umsóknarferlinu stóð.

Mér var falið það verkefni að koma með tillögu að því hvernig mætti útbúa aðstöðu til landsmótshalds á Hólum og að áætla hvað slík uppbygging myndi kosta. Þetta mun hafa verið áður en gengið var frá samningum um landsmót á Vindheimamelum 2006. Áætlun mín hljóðaði upp á 100-120 milljónir króna á þeim tíma og sneri einungis að mótssvæðinu sem slíku.

Ímynda ég mér að þessi hugmynd um tilflutning sé tekin í fljótfærni og snúi að umræðunni um það hvort hafa þurfi húspláss fyrir öll keppnishross á landsmótssvæðinu, eða hvort ásættanlegt sé að nægjanlegt húspláss sé í um hálftímafjarlægð frá mótssvæðinu. Þetta er umræða sem er orðin hávær nú og byggist á því að aftur og aftur hafa verið valin mótssvæði sem sama og ekkert hafa gert í að útbúa skjól fyrir mótsgesti.

Málefnaleg umræða þarf ætíð að eiga sér stað um kröfur til landsmótsstaða og verði kröfur hertar í framtíðinni þá þurfa þær að vera gerðar með a.m.k. fimm ára fyrirvara.

Skora ég á nýja stjórn LH að ljúka samningum um landsmót 2016 í seinasta lagi í janúar á næsta ári og semja um landsmóthaldið 2018 og velja landsmótsstað fyrir landsmót 2020 fyrir lok júní á næsta ári í samræmi við lög og reglur LH.

 

Eyjafirði 5. desember 2014

Jónas Vigfússon, Litla-Dal