Equicoach – Markþjálfun sem notar hestinn sem spegil

31. mars 2009
Fréttir
Sýnikennslan fer fram á Mið-Fossum í Andakíl.
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri kynnir eftirfarandi sýnikennslu sem er öllum opin og að kostnaðarlausu, en æskilegt að viðkomandi skrái sig til leiks! Equicoach – Markþjálfun sem notar hestinn sem spegil -  er vinsæl nýjung frá Belgíu, sem nú er að nema land á Íslandi. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri kynnir eftirfarandi sýnikennslu sem er öllum opin og að kostnaðarlausu, en æskilegt að viðkomandi skrái sig til leiks! Equicoach – Markþjálfun sem notar hestinn sem spegil -  er vinsæl nýjung frá Belgíu, sem nú er að nema land á Íslandi.  

 
Equicoach getur útlagst sem hestamarkþjálfun á íslensku og er sérstök markþjálfunaraðferð (coaching) sem notar hesta til að gefa þátttakendum betri endurgjöf um hegðun þeirra. Belginn Eric Van Poucke, er upphafsmaður þessarar aðferðar sem byggist á þeirri einföldu staðreynd að hestar eru einstaklega heiðarlegir og bregðast við hegðun manna algerlega áháð stöðu þeirra, útliti eða öðru slíku. Þessi aðferð nýtur ört vaxandi vinsælda meðal einstaklinga, skólastofnana og alls kyns fyrirtækja.
 
Equicoaching er ekki meðferðarform, enda er ekki hreyft við fortíðinni heldur nútíminn skoðaður og hvernig viðkomandi vill hafa framtíðina. “Venjulega er byrjað á viðtali þar sem markmið hvers og eins einstaklings eða hóps eru skoðuð. Næst er farið í einfaldar æfingar með hesti og má segja að það að vinna með hest sé eins og að horfa í spegil” segir Erik og brosir. Hesturinn gefur skýr skilaboð með viðbrögðum sínum við líkamstjáningu mannsins sem breytist greinilega eftir hugarástandi hans.


Þáttakendum er svo hjálpað að finna skref í átt að markmiðum sínum, hvort sem þau lúta að því að bæta samskipti við einhvern eða einhverja, eða setja sér mörk eða hvað annað. Hesturinn sýnir breytingu á viðbrögðum sínum eftir því sem þátttakendur þróast nær markmiðum sínum. Hægt er að beita aðferðinni hvort sem er á einstaklingsgrunni eða í hópum og nota má nær hvaða hest sem er enda þarf ekki að þjálfa hann í einu eða neinu.
 
Equicoaching er smám saman að breiðast út fyrir Belgíu og nú eiga Íslendingar þess kost að kynna sér þessa áhugaverðu nýjung.
 
Eric og félagar munu vera með kynningu og sýnikennslu í Hestamiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Miðfossum sunnudaginn 5. apríl milli 18:00 og 21:00. Þátttakan er fólki að kostnaðarlausu en mikilvægt er að skrá sig hjá endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000, fyrir 3. apríl næstkomandi.
 
Kynningin fer fram á ensku.