Enn hægt að styrkja Önnu og Nínu

06. maí 2013
Fréttir
Allur ágóði af Kvennatöltinu sem haldið var í reiðhöllinni í Víðidal fyrir skemmstu mun renna til tveggja ungra kvenna sem orðið hafa fyrir áföllum í lífinu og glíma við fötlun í kjölfarið. Gengið verður frá uppgjöri á mótinu í lok þessarar viku, en kortagreiðslur berast nú um mánaðamótin.

Allur ágóði af Kvennatöltinu sem haldið var í reiðhöllinni í Víðidal fyrir skemmstu mun renna til tveggja ungra kvenna sem orðið hafa fyrir áföllum í lífinu og glíma við fötlun í kjölfarið. Gengið verður frá uppgjöri á mótinu í lok þessarar viku, en kortagreiðslur berast nú um mánaðamótin.

Mótsstjórn hefur ákveðið að bjóða þeim sem ekki gátu komið á mótið að styrkja þær stöllur, Önnu og Nínu, með frjálsu framlagi inn á reikning í umsýslu Oddnýjar Erlendsdóttur gjaldkera Kvennatöltsins.

Reikningupplýsingarnar eru: kt. 270464-2119, reikn.nr. 0536-05-8501.

Allur ágóði af mótinu og þeir peningar sem safnast inn á reikninginn munu renna óskiptir til Önnu og Nínu.

Anna Rebecka Einarsdóttir, 26 ára, hefur stundað nám á Hólum og var starfandi tamningamaður á Oddhóli þegar hún lenti í slysi í hesthúsinu í fyrrasumar og datt af baki með þeim afleiðingum að hún lamaðist alveg. Hún hefur verið undir læknishöndum og í endurhæfingu mánuðum saman og er staðráðin í að ná bata. Miklar framfarir hafa orðið, hún getur nú notað hendurnar og haldið haus, en máttur í neðri hluta líkamans hefur enn ekki komið til baka og er hún bundin hjólastól. Anna hefur þó mikinn baráttuvilja og ætlar sér að ná lengra og hennar æðsti draumur er að komast aftur á bak og geta stjórnað hesti. Hún segir þetta ferli hafa verið erfitt og hún sé oft við það að gefast upp, en sá mikli stuðningur sem hún finni fyrir, sérstaklega á meðal hestamanna, sé henni gríðarleg hvatning sem veiti henni þrek og vilja til að berjast áfram. Anna leitar sér nú að hentugu húsnæði til búsetu og segist einnig vera farin að skoða aðra námsmöguleika í lífinu, en fyrir slysið lifði hún fyrir hestana. „Allt mitt líf snérist um íslenska hestinn og hestamennsku. Ég elska hesta og hef aldrei viljað gera neitt annað, en nú hefur þetta auðvitað allt breyst,“ segir Anna. Þessi kjarkmikla og duglega stúlka er góð fyrirmynd sem hvetur aðra til góðra verka og vonandi geta hestamenn hjálpað henni með því að létta undir í hennar baráttu.

Nína Kristín Sigurbjörnsdóttir er 19 ára og er langveik. Hún veiktist eins og hálfs árs og var þá greind með sjúkdóminn OMS. Hún missti hreyfifærni og varð fyrir þroskaskerðingu. Hún gekk með göngugrind frá því hún var lítil þar til haustið 2011 þegar hún veiktist mikið, henni hrakaði gríðarlega á öllum sviðum og var í framhaldinu send til Boston til skoðunar. Þar kom í ljós að hún væri ranglega greind og hún náði stórkostlegum bata að nýju, en hefur þó ekki náð sama styrk í fæturnar og er nú að mestu bundin í hjólastól. Að sögn fjölskyldu hennar er Nína lífsglöð og kát og hefur alltaf verið í hestunum, stundað sjúkraþjálfun á hestbaki og hestmennsku með fjölskyldunni í hesthúsi þeirra í Víðidalnum. Nína býr nú ein og stundar nám við FÁ. 

Munið að hvert framlag skiptir máli og margt smátt gerir eitt stórt. Við hvetjum hestamenn til að sýna hlýhug sinn í verki og leggja söfnuninni lið. Styrkurinn verður afhentur stúlkunum um miðjan maí mánuð.

Mótsstjórn Kvennatöltsins