Ráslisti fyrir slaktaumatöltið

24. febrúar 2016
Fréttir

 

Keppt verður í slaktaumatölti á morgun í Fákaseli en keppni hefst kl. 19:00. Ráslistinn er klár en fyrstur í braut er Sigurbjörn Bárðarson á Spóa frá Litlu-Brekku. Þetta er frumraun Spóa í slaktaumatölti en þeir hafa gert það gott í fimmgangi. Næstur á eftir honum er liðsfélagi hans Sigurður Sigurðarson en hann keppir á Freyþóri frá Ásbrú. Sigurður og Freyþór voru í þriðja sæti í fyrra í slaktaumatölti svo spennandi verður að sjá hvað þeir gera í ár. 

Í A úrslitum í fyrra voru þau Lena Zielinski (efst) á Melkorku frá Hárlaugsstöðum, Reynir Örn Pálmason á Greifa frá Holtsmúla (annar), Sigurður (þriðji), Árni Björn Pálsson á Skímu frá Kvistum (fjórði), Bergur Jónsson á Frama frá Ketilsstöðum (fimmti) og Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum (sjötti). Í ár mæta þau öll aftur nema Reynir og Sigurbjörn tefla fram nýjum hestum þar sem báðir hestarnir fóru úr landi síðasta sumar til að keppa á heimsmeistaramótinu í Herning. Bergur Jónsson mætir í ár á Simba frá Ketilsstöðum en Simbi var í B úrslitum í fyrra undir stjórn Olil Amble. Frami frá Ketilsstöðum keppir þó í slaktaumatöltinu aftur í ár en nýliðin Elin Holst mun taka hann til kostanna. 

Hulda Gústafsdóttir mætir með Skorra frá Skriðulandi en Gústaf Ásgeir Hinriksson varð Íslandsmeistari í slaktaumatölti í ungmennaflokki á honum síðasta sumar en þeir hlutu 8,08 í einkunn. Þetta verður hörku spennandi keppni þar sem gamal reyndir snillingar mæta í braut sem og efnilegar framtíðarstjörnur. 

Eins og áður verður hlaðborð í boði í Fákaseli fyrir keppni og léttar veitingar seldar á meðan keppni fer fram. Húsið opnar 17:00 en miðar eru seldir í verslunum Líflands og í Baldvini og Þorvaldi og Top Reiter en einnig við innganginn. 

Mynd af Lenu Zielinski og Melkorku frá Hárlaugsstöðum

Ráslisti