Ingimar Ingimarsson hlaut gullmerki LH

22. desember 2020
Fréttir

Ingimar Ingimarsson frá Flugumýri hlaut gullmerki LH við hátíðlega athöfn á Hólum. Það var formaður LH Lárus Ástmar Hannesson sem veitti honum viðurkenninguna og hafði við það tilefni eftirfarandi orð:

Við hestamenn hömpum okkar góða fólki á ýmsan máta. Sumir ná góðum árangri á keppnisbrautum, aðrir rækta afburða hesta og enn aðrir vinna góð verk, standandi í eldlínu félagskerfisins sem allt annað ber uppi. Það má segja að sá aðili sem við heiðrum hér í dag hafi skilað góðum verkum á öllum þessum sviðum. Mig langar að kalla hingað til mín hestamanninn Ingimar Ingimarsson frá Flugumýri. 

Ingimar heillaðist sem barn, heima á Flugumýri, af hestum. Myndaði, á unga aldri, með þeim samband sem hefur verið kærleiksríkt og gefandi og okkur hinum til eftirbreytni.

Þó Ingimar hafi hleypt heimdraganum ungur að árum og haldið suður á höfuðborgarsvæðið til náms var ekki inni í myndinni að vera hestlaus. Hann var með hesta í Gamla – Fáki og síðar í Gusti, keppti á Kjóavöllum og reið þaðan inn í Garðabæ í kaffi til systur sinnar.

Árið 1975 söðluðu Ingimar og fjölskylda um og var stefnan tekin norður í heimahagana. Þó aðalstarfið væri í Búnaðarbankanum áttu hrossin hans hug og hjarta. Ingimar gekk í hestamannafélagið Léttfeta og var í stjórn félagsins í nokkur ár.  Það var svo á  fjórðungsmóti árið 1979 að Ingimar var með efstu hryssurnar bæði í 4v flokki, með hryssuna Blíðu frá Flugumýri og 6v flokki með Lyftingu frá Flugumýri auk þess að vera gjaldkeri mótsins.

Það er einmitt einkenni þessa öfluga hestamanns að hafa alltaf verið tilbúinn að leggja félagskerfinu lið þó mikið væri að gera í tamningum, sýningum og keppni.

Það var því ekki að undra að forsvarsmenn Hólaskóla hafi leitað til Ingimars árið 1981 um að koma til starfa við skólann sem tamningamaður og reiðkennari. Ingimar tók því stóran þátt í uppbyggingu Hólaskóla á þessum árum sem mörkuðu merkilegan feril skólans sem er okkur hestamönnum svo mikilvægur.

Sem tamningamaður á Hólum náði Ingimar frábærum árangri ekki síst á landsmótinu á Vindheimamelum 1982 og fjórðungsmótunum á Melgerðismelum 1983 og 1987.

Mörg munum við eftir eftirminnilegri sýningu Ingimars á gæðingnum og ræktunarhryssunni  Þrá frá Hólum. Hann sýndi Þrá 1982 á landsmótinu á Vindheimamelum þar sem að hún fékk 8.45 fyrir hæfileika og 8.50 fyrir byggingu og þar af 8.48 í aðaleinkunn.  Sú einkunn þótti fádæma há þá og þykir enn.

Mörg önnur afrek sem Ingimar hefur unnið væri hægt að telja hér upp en það yrði of langt mál.

Alltaf hefur Ingimar verið tilbúinn að taka að sér ábyrgðarstörf innan hestamennskunnar og 1983 var Hestaíþróttadeild Skagafjarðar stofnuð og Ingimar kosinn formaður hennar og hélt deildin Íslandsmót á Vindheimamelum sumarið  1983.

Ingimar hefur í gegnum árin stundað hrossarækt og starfað í Félagi hrossabænda í Skagafirði og var m.a. markaðsstjóri þeirra, þar sem hann starfaði náið með Einari á Syðra-Skörðugili að þeim málum.

Eftir farsælt starf á Hólum rak Ingimar tamningarstöð á Garðhúsum ásamt Agli Þórarinssyni í tvo vetur frá 1987-1989.  Þaðan lá leiðin suður í Dal í Mosfellsbæ í byrjun árs 1990 þar sem Ingimar tók við tamningum auk þess að vera með reiðkennslu í Fáki og víðar.

Það var svo haustið 1990 sem fjölskyldan festi kaup á Ytra-Skörðugili í Skagafirði þar sem þau búa og stunda sín hugðarefni og búa þar enn.

Ingimar hefur einnig tekið þátt í að þjónusta útlendinga sem koma til landsins til að kynnast og sjá hestinn okkar.

Ingimar starfaði í 5 ár við Hestamiðastöð Íslands sem stofnuð var árið 2000.

Hann kom að skipulagningu starfsemi reiðhallarinnar Svaðastaða frá byrjun og var sýningastjóri á öllum viðburðum til ársins 2006 og kom á samstarfi við FNV um hestabraut við skólann og kenndi þar fyrstu árin en brautin er enn starfrækt við skólann. Ingimar var formaður Hrossaræktarsambands Skagfirðinga í 12 ár og lykilmaður í sameiningu hestamannafélaganna í Skagafirði. Hann hefur setið í tvígang í stjórn LH, í seinna skiptið 2016-2018.

Það eru þrjár hestamyndir sem ég held mest uppá. Ein er af Alberti Jónssyni á Náttfara frá Ytra – Dalsgerði þar sem þeir fljúga yfir grundir á glæsilegu skeiði þar þarf ekki að velta fyrir sér hvort skeiðið er fjórtaktað.

Önnur af þessum myndum er af Bjössa á Varmalæk á Hrímni frá Hrafnagili. Myndin er líklega tekin á grundum Vindheima. Þar fer Hrímnir í fullkomnum höfuðburði á léttum stöngum og enginn múll. Fótaburðurinn er eins og best verður á kosið þó engar séu þyngingarnar. Knapinn hann Bjössi á varmalæk situr eins riddari  teiknaður á hestinn miðað við ýtrustu kröfur um ásetu sem á að vera til fyrirmyndar í einu og öllu.

Þriðja myndin er af áðurnefndum Ingimari á gæðingshryssunni Þrá frá Hólum þar sem hann er að sýna hryssuna 4. vetra í einkunnina 8:45. Hryssan er á flug skeiði og knapinn situr í fullkomnu jafnvægi með létt taumsamband. Beislabúnaðurinn  er einfaldur, bara hringamél og enginn múll.

Svo mikið veit ég um hesta að það þarf úrvals næmni, sanngirni og traust til að ná þeim árangri sem Ingimar náði með þetta unga tryppi og myndu fáir eftir leika.

Það sem mér finnst þó ekki minnst um vert í aðkomu Ingimars að hestaheiminum okkar í gegnum tíðina er hans endalausa jákvæðni, framsýni og auðmýkt sem við getum öll tekið okkur til fyrirmyndar.

Það er ákaflega vel við hæfi að heiðra þennan höfðingja í þessari glæsilegu reiðhöll á Hólum í Hjaltadal sem kennd er við áðurnefndna gæðingshryssu Þrá frá Hólum og heitir Þráarhöllin.

Ingimar Ingimarsson frá Flugumýri

Það er mér mikill heiður að fá, fyrir hönd stjórnar LH og hestamanna allra, að veita þér virðingar og þakkarvott með því að afhenda þér gullmerki Landssambands hestamannafélaga.

Hafðu kærar þakkir fyrir þitt framlag til reiðmennskunnar og óeigingjarns starfs í félagskerfi okkar.

Takk

Lárus Ástmar Hannesson

Formaður Landssambands hestamannafélaga

21. nóvember 2020