LH og RML semja við Noreg og Svíðþjóð um notkun á SportFeng

LH og RML hafa skrifað undir samning við NIHF Íslandshestasamband Noregs og SIF Íslandshestasamband Svíþjóðar um notkun á SportFeng til næstu fimm ára. Þetta var síðasta embættisverk Lárusar Ástmars Hannessonar fyrrverandi formanns LH. Þetta er búið að vera langt ferli og er fyrsta skrefið í alþjóðavæðingu Sportfengs en síðastliðin tvö ár hafa Svíjar  verið með prufuaðgang að SportFeng. 

SportFengur hefur nú verið þýddur á ensku, auk þess hefur kerfið verið aðlagað fyrir notkun erlendis.

SportFengur er móta- og námskeiðakerfi LH. Kerfið er samstarfsverkefni LH og Rannsóknarmiðstöðvar landbúnaðarins RML. Tölvunefnd LH er faglegur ábyrgðaraðili en tölvudeild RML sér um alla hugbúnaðargerð. Hugbúnaðinum er ætlað að halda utan um og reikna út niðurstöður og úrslit móta í hestaíþrótta- og gæðingakeppnum og að geyma þessar upplýsingar.  SportFengur er tengdur WorldFeng og sækir upplýsingar um hross þangað. Hann sækir einnig félagatöl hestamannafélaganna úr Felix, félagakerfi ÍSÍ. Kerfið er í stöðugri þróun og LH Kappi appið sækir allar upplýsingar í SportFeng og öll mót sem haldin eru í kerfinu birtast í LH kappa, á þessu ári verður því hægt að fylgjast með mótum bæði frá Noregi og Svíþjóð þar.