Vilt þú starfa í nefndum LH?

11. desember 2020
Fréttir

Á næstunni mun stjórn Landssambands hestamannafélaga skipa í nefndir sambandsins til næstu tveggja ára.

Nefndarstörf eru undirstaðan í öllu starfi LH og mikilvægt að fá öfluga sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum.

Ef þú ert tilbúin/n til að starfa í nefnd hjá LH þá sækir þú um á sértöku umsóknareyðublaði.

Nefndirnar sem um ræðir eru:

Aganefnd
Hlutverk aganefndar er að fjalla um kærur og mál sem upp koma  á mótum innan vébanda LH. Aganefnd fjallar einnig um skýrslur yfirdómnefnda móta og ákvarðar refsingu fyrir brot á keppnisreglum og reglugerðum LH.

Keppnisnefnd
Keppnisnefnd fjallar um mál sem stjórn LH vísar til hennar en hefur að öðru leyti frumkvæðisrétt að málefnum sem undir hana heyra. Hlutverk nefndarinnar er að endurskoða reglugerðir LH er varðar keppnir og koma með tillögur að breytingum ef þörf er á. Nefndin skal jafnan hafa hliðsjón af reglum ÍSÍ og öðrum reglugerðum sem LH hefur samþykkt. Þá skal nefndin sjá um að samþykktir landsþinga falli að lögum og reglum LH.

Laganefnd
Hlutverk laganefndar er að sjá til þess að breytingar á lögum og reglum sem samþykktar eru á FEIF-þingi og landsþingi LH séu rétt færð inn í lög og reglur LH.  Laganefnd skal fara yfir tillögur til landsþings og nefndin er stjórn til halds og trausts þegar kemur að túlkun laga og reglna FEIF og LH.

Landsliðsnefnd
Hlutverk landsliðsnefndar er að móta umgjörð um afreksmál LH og halda utan um landsliðshópa og hæfileikamótun LH. Nefndin er einnig fjáröflunarnefnd fyrir afreksstarf LH. Nefndin skipuleggur landsliðsferðir og fylgir eftir landsliðum Íslands í hestaíþróttum bæði á HM og NM.

Mannvikjanefnd
Hlutverk mannvirkjanefndar er að veita ráðgjöf um gerð mannvirkja sem notuð eru við hestaíþróttir og hestamennsku almennt. M.a. keppnis- og æfingavelli, reiðvegi og reiðhallir.

Menntanefnd
Hlutverk menntanefndar er m.a. að fylgja eftir þjálfarastigum LH í samstarfi við Háskólann á Hólum. Nefndin heldur utan um endurmenntunarnámskeið fyrir reiðkennara og staðfestir virka reiðkennara til FEIF. Nefndin er tilltölulega ný og á enn eftir að móta starf sitt. 

Ferða- og samgöngunefnd
Sinnir hagsmunagæslu varðandi reiðvegi og samgöngur hestamanna sem og að úthluta reiðvegafé til hestamannafélaganna. Nefndin er jafnframt skipuð af formönnum reiðveganefnda hvers svæðis en landinu hefur verið skipt upp í sjö svæði sem hvert hefur sína reiðveganefnd með fulltrúum félagannna á hverju svæði.

Tölvunefnd
Hlutverk tölvunefndar er m.a að halda utan um SportFeng og LH kappa, þróun þessara kerfa sem og námskeiðahald vegna SportFengs.

Æskulýðsnefnd
Hlutverk Æskulýðsnefndar er að efla fræðslu um æskulýðsmál og gæta hagsmuna æskunnar í íþróttinni, auka fræðslu æskulýðsfulltrúa um allt land og styðja við þá í starfi. Nefndin tilnefnir fulltrúa, í samstarfi við landsliðsnefnd, sem fylgir ungmennum á HM, NM og önnur stórmót. Nefndin sér einnig um val þátttakenda á FEIF Youth Cup og Youth Camp.

Öryggisnefnd
Öryggisnefnd LH hefur ekki verið starfandi í nokkur ár en nú stendur að endurvekja hana. Verkefni öryggisnefndar verður að tryggja öryggi á reiðvegum og annars staðar þar sem hestamennska er stunduð. Nefndin verður einnig tengiliður stjórnar LH við opinbera aðila og sér um að fræða hinn almenna hestamann um hvernig hægt er að bæta öryggi í nærumhverfi.

Ef þú ert tilbúin til að starfa í nefnd hjá LH þá sækir þú um á umsóknareyðublaði