A-landsliðshópur LH 2021

30. október 2020
Fréttir

Landssamband hestamannafélaga kynnir nýjan landsliðshóp A-landsliðs fyrir árið 2021.

Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari hefur gert breytingar á A-landsliðshópi LH, inn í hópinn koma þrír nýir knapar, þau Daníel Gunnarsson, Jóhanna Margrét Snorradóttir og Snorri Dal.

Úr liðinu ganga fjórir knapar, þau Ásmundur Ernir Snorrason, Haukur Tryggvason, Hulda Gústafsdóttir og Þórarinn Ragnarsson.

Við val á knöpum í landsliðshópana er tekið tillit til árangurs í keppni, reiðmennsku, hestakosts og íþróttamannslegrar framkomu.

Framundan er heimsmeistaramótsár en Heimsmeistaramót íslenska hestsins verður haldið í Herning í Danmörku í byrjun ágúst. Knapar í landsliðshópum LH eru í forvali þegar kemur að landliðsverkefnum en einnig er landsliðsþjálfara heimilt að velja knapa utan hópsins þegar þurfa þykir.

Dagskrá landsliðshópanna í vetur liggur fyrir.

Í upphafi keppnistímabils eru gerðar líkamlegar mælingar á knöpunum, gerð eru styrktarpróf, þolpróf og jafnvægis- og hreyfimynsturspróf og boðið er upp á ýmsa fræðslu og fyrirlestra yfir árið. Reglulegt endurmat verður lagt á hvern og einn knapa í hópnum.

Sú nýbreytni verður höfð á í vetur að landsliðnefnd mun standa fyrir kennslusýningum, bæði á Norðurlandi og Suðurlandi og munu þannig stuðla að því að miðla þekkingu okkar fremsta afreksfólks til hins almenna reiðmanns.

Laugardaginn 3. apríl verður fjáröflunarmót landsliðsnefndar, “Allra sterkustu”, haldið í TM-reiðhöllinni í Víðidal. Mótið er með léttu yfirbragði og þar mætast landsliðsknaparnir með sína bestu hesta.

Valin WorldRanking mót verða skyldumót fyrir landsliðsknapa að mæta á og verður árangur á þeim mótum hafður til hliðsjónar við val á liði fyrir HM og landsliðinu fyrir árið 2021.

A-landsliðhóp LH 2021 skipa:

Ríkjandi heimsmeistarar og titilverjendur

Benjamín Sandur Ingólfsson, Fáki

Benjamín er ríkjandi heimsmeistari ungmenna í gæðingaskeiði. Hann varð m.a. Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í unglingaflokki í gæðingaskeiði 2016 og Reykjavíkurmeistari í gæðingaskeiði ungmenna 2018. Hann var valinn efnilegasti knapi ársins 2019.

Guðmundur Björgvinsson, Geysi

Guðmundur er ríkjandi heimsmeistari í 250 m. skeiði. Guðmundur Björgvinsson stundar tamningar og þjálfun á Efri-Rauðalæk í Rangárvallasýslu. Guðmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi 2012 og 2015,  heimsmeistari í fjórgangi árið 2015. Guðmundur var kosinn knapi ársins árið 2012 og 2015 og skeiðknapi ársins 2017.

Jóhann Skúlason, Fáki

Jóhann er ríkjandi heimsmeistari í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum. Jóhann stundar tamningar og þjálfun í Danmörku. Hann er margfaldur heimsmeistari í tölti og hefur unnið ótal aðra titla í hestaíþróttum hérlendis sem erlendis. Jóhann var valinn íþróttaknapi ársins og knapi ársins 2019 og hann varð í 12. sæti í kjöri um íþróttamann ársins 2019.

Konráð Valur Sveinsson, Fáki

Konráð Valur Sveinsson er ríkjandi heimsmeistari í 100 m. skeiði. Konráð varð heimsmeistari í flokki ungmenna í gæðingaskeiði 2017. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum, heimsmethafi í 250m skeiði og ríkjandi heimsmeistari í 100m skeiði. Hann var valinn skeiðknapi ársins 2019. Konráð stundar kennslu við Háskólann á Hólum.

Teitur Árnason, Fáki

Teitur er ríkjandi heimsmeistari í gæðingaskeið. Teitur er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og starfar við tamningar og þjálfun á Hvoli í Ölfusi. Teitur var valinn skeiðknapi ársins 2014 og 2015 og gæðingaknapi ársins 2018. Hann varð Norðurlandameistari í gæðingaskeiði 2018 og heimsmeistari í gæðingaskeiði árið 2015.  Hann á ríkjandi Íslandsmet í 150 m. skeiði, var Landsmótssigurvegari í A flokki og Íslandsmeistari í fimmgangi 2018 og Reykjavíkurmeistari í fimmgangi 2020.

Aðrir landsliðsknapar 2021

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir, Herði

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar á Hrossaræktarbúinu Króki/Margrétarhofi. Aðalheiður varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði 2017, Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum 2019 og í 1. sæti í slaktaumatölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á Reykjavíkurmóti árið 2020 á hesti sínum Óskari frá Breiðstöðum.

Árni Björn Pálsson, Fáki

Árni Björn er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og stundar tamingar og þjálfun á Oddhól á Rangárvöllum. Hann varð Íslandmeistari í tölti þrjú ár í röð 2012-2014 og aftur árið 2016 og 2019. Hann var einnig Íslandsmeistari í fjórgangí 2019 og bar sigur úr býtum í tölti á Landsmóti 2014, 2016 og 2018. Árni Björn var valinn knapi ársins 2014, 2016 og 2018.

Bergþór Eggertsson, Þýskalandi

Bergþór Eggertsson er margfaldur heimsmeistari í skeiðgreinum. Hann býr á Lótushofi í Þýskalandi og starfar þar við tamningar og þjálfun.

Daníel Gunnarsson, Sleipni

Daníel Gunnarsson kemur nýr inn í landsliðshóp LH. Daníel hefur átt frábært keppnisár í skeiðgreinum á hryssunni Einingu frá Einhamri 2.

Gústaf Ásgeir Hinriksson, Fáki

Gústaf Ásgeir Hinriksson útskrifaðist sem reiðkennari og þjálfari frá Hólum vorið 2018 og starfar við tamningar og þjálfun á Árbakka í Rangárvallasýslu. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum og sigraði ungmennaflokk Landsmóts 2014 og 2016. Hann átti gott keppnisár árið 2020 á hestinum Brynjari frá Bakkakoti. Gústaf varð heimsmeistari í fjórgangi í flokki ungmenna 2017.

Hanna Rún Ingibergsdóttir, Sörla

Hanna Rún Ingibergsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún hefur átt góðu gengi að fanga á keppnisbrautinni síðastliðin ár og hefur meðal annars verið í úrslitum á Íslandsmótum og Landsmótum. Hanna Rún starfar við tamningar og þjálfun í Kirkjubæ á Rangárvöllum.

Helga Una Björnsdóttir, Þyt

Helga Una Björnsdóttir útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum árið 2018. Helga Una hefur skapað sér gott orð á keppnisbrautinni undanfarin ár. Hún varð m.a. Íslandsmeistari í 100 m. skeiði árið 2016. Einnig varð hún Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2019.

Hinrik Bragason, Fáki

Hinrik Bragason starfar sem tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Hinrik er margfaldur Íslands-, Norðurlanda og heimsmeistari. Hinrik sigraði A-flokk á LM 2011 og var kjörinn gæðingaknapi ársins 2011. Hann átti gott keppnisár 2020 á hestinum Byr frá Borgarnesi.

Jakob Svavar Sigurðsson, Dreyri

Jakob Svavar Sigurðsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla og stundar tamningar og þjálfun á Fákshólum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og sigraði B-flokk á Landsmóti 2016. Jakob var kosinn íþróttaknapi ársins 2012, 2013, 2017 og 2018, gæðingaknapi ársins 2016 og knapi ársins 2017. Jakob varð heimsmeistari í tölti árið 2017.

Jóhanna Margrét Snorradóttir, Mána

Jóhanna Margrét Snorradóttir kemur ný inn í landsliðshópinn en hún var áður í hópnum árið 2019. Jóhanna útskrifaðist sem reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum árið 2018. Hún starfar við þjálfun og reiðkennslu á Árbakka. Jóhanna var kjörin efnilegasti knapinn árið 2015 og átti frábæran árangur í yngri flokkum. Hún átti gott keppnisár 2020 á hestinum Bárði frá Melabergi.

Olil Amble, Sleipni

Olil Amble starfar sem tamningamaður og þjálfari á Syðri-Gegnishólum. Olil hefur margoft tekið þátt í heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum auk þess að hafa hlotið nokkra Íslandsmeistaratitla, m.a. var hún Íslandsmeistari í fimmgangi 2019. Olil varð heimsmeistari í fjórgangi árið 1999.

Ragnhildur Haraldsdóttir, Sleipni

Ragnhildur Haraldsdóttir er starfandi tamningamaður og reiðkennari frá Hólum og hefur starfað við þjálfun hrossa í fjölda ára. Ragnhildur varð Reykjavíkurmeistari í fjórgangi 2020 á Váki frá Vatnsenda.

Siguroddur Pétursson, Snæfellingi

Siguroddur Pétursson stundar tamningar og þjálfun í Hrísdal á Snæfellsnesi. Hann hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni undanfarin ár varð m.a. í 4. sæti í tölti á Landsmóti 2018. Hann átti gott keppnisár 2020 á hestinum Stegg frá Hrísdal.

Sigursteinn Sumarliðason, Sleipni

Sigursteinn hefur orðið heimsmeistari í gæðingaskeiði 2007, varð Íslandsmeistari í tölti 2011 og landsmótssigurvegari í tölti árin 2011 og 2012. Sigursteinn hefur átt gott keppnisár 2020 í skeiðgreinum á hestinum Krókusi frá Dalbæ og á besta tíma ársins 2020 í heiminum í 250 m. skeiði.

Snorri Dal, Sörla

Snorri Dal Sveinsson kemur nýr inn í landsliðshópinn. Snorri hefur átt frábært keppnisár á hestinum Engli frá Ytri-Bægisá I í fimmgangi. Snorri hefur átt góðan keppnisárangur og var m.a. Landsmótssigurvegari B flokki 2006 og í 150 m skeiði 2008 og Íslandsmeistari í fjórgangi 2007, 2008 og 2009.

Viðar Ingólfsson, Fáki

Viðar Ingólfsson stundar tamningar og þjálfun að Kvíarhóli í Ölfusi. Hann er m.a. margfaldur Íslandsmeistari og Landsmótssigurvegari í tölti. Hann var íþróttaknapi ársins 2008 og gæðingaknapi ársins 2007. Hann varð Reykjavíkurmeistari í tölti 2020.

Þórarinn Eymundsson, Skagfirðingi

Þórarinn Eymundsson stundar tamningar og reiðkennslu á Sauðárkróki. Þórarinn er reiðkennari frá Hólaskóla og hefur starfað sem reiðkennari við skólann síðan árið 2002. Þórarinn hefur náð góðum árangri í öllum keppnisgreinum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum. Árið 2007 vann Þórarinn til tveggja gullverðlauna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins og var valinn knapi ársins sama ár. Þórarinn er reiðmeistari Félags tamningamanna.