Eftirlit með heilbrigði hestaleiguhesta

29. júní 2010
Fréttir
Undirrituð skoðaði ferðahesta Íshesta á Mælifellsdal, eftir ferð yfir Kjöl, föstudaginn 25. júní sl. Fylgst var með hópnum þar sem hann fór yfir Mælifellshálsinn stuttu áður en komið var til byggða. Undirrituð skoðaði ferðahesta Íshesta á Mælifellsdal, eftir ferð yfir Kjöl, föstudaginn 25. júní sl. Fylgst var með hópnum þar sem hann fór yfir Mælifellshálsinn stuttu áður en komið var til byggða. Alls voru 130 hross í hópnum, þar af 20 hross sem verið var að ferja yfir Kjalveg og ekki fara suður aftur. Þá var með í för aðstoðarmaður með nokkur hross sem ekki ætlaði til baka með hópnum. Alls voru 28 hross undir hnakk við skoðunina.

Rekstur lausu hestanna fór á undan og var riðið létt yfir hálsinn enda mikill vilji í hestunum. Ekki heyrðist hósti eða stuna frá nokkrum hesti. Ferðamennirnir og fararstjórar þeirra fylgdu á eftir, litlu hægar, og ekki varð vart við nein einkenni í þeirra hestum heldur. Hópnum var fylgt eftir niður Mælifellsdalinn, til byggða, þar sem áð var. Þar voru hrossin skoðuð betur og fylgst með þeim í um klukkutíma. Ekki var annað að sjá en öll hrossin væru í góðu líkamlegu ástandi, enginn með hor í nös og ekki bar mikið á að þau frýsuðu þrátt fyrir mikið ryk niður dalinn. Einn hestur hóstaði einu sinni á meðan stoppað var og var það einn þeirra hesta sem verið var að ferja yfir Kjöl. Honum hafði því ekki verið riðið í ferðinni. Fararstjóri upplýsti að einn hestur hefði verið skilinn eftir á Hveravöllum vegna þess að hann hefði hóstað og er hann þar á gjöf með öðrum hestum. Ástand hans verður metið á bakaleiðinni og hann fluttur til byggða í kerru ef enn verður vart við hósta.

Í heildina séð var ástand ferðahestanna mjög gott og ekkert sem benti til annars en að eingöngu heilbrigðir hestar hefðu verið notaðir í þessa ferð Íshesta yfir Kjöl. Fararstjórarnir voru vakandi yfir heilbrigði og velferð hestanna og tilbúnir að bregðast við ef vart yrði við einkenni smitandi hósta.

F.h. Matvælastofnunar,
Sigríður Björnsdóttir
Dýralæknir hrossasjúkdóma