Brimfaxi fékk æskulýðsbikarinn 2017

01. nóvember 2017

Formannafundur LH var haldinn síðastliðinn föstudag 27.október í Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Fundurinn hófst á lögbundnum liðum. Lárus Ásmar Hannesson formaður LH fór yfir skýrslu stjórnar og Ólafur Þórisson gjaldkeri LH fór yfir reikninga og 8 mánaða uppgjör 2017. Því næst tók Helga B. Helgadóttir ritari LH og formaður æskulýðsnefndar LH til máls og kynnti handhafa ækulýðsbikarsins. Bikarinn er veittur því hestamannafélagi sem þykir hafa skarað framúr með sínu starfi að æskulýðsmálum. Valið byggir á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna, sem sendar eru inn til æskulýðsnefndar LH á haustin og hefur nefndin það verkefni að velja bestu skýrsluna. Alls skiluðu 19 félög inn skýrslu og þessu sinni hlaut Brimfaxi í Grindavík bikarinn og er vel að honum komin. 

Fimm erindi voru flutt á fundinum hvert öðru áhugaverðara. 

Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Hólum kynnti niðurstöður úr fjölþjóðlegri rannsókn sem gerð var á Landsmóti hestamanna sumarið 2016. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla heildstæðrar þekkingar um Landsmót hestamanna sem viðburð en þetta er ein viðamesta rannsókn sem gerð hefur verið á viðburði hérlendis. Frumniðurstöður helstu rannsóknaþátta eru birtar í ritstýrðri bók sem finna má á linknum hér að neðan http://www.holar.is/sites/holar.is/files/images/rannsokn_a_landsmoti_hestamanna_2016.pdf  

Oddrún Ýr Sigurðardóttir þroskaþjálfi og reiðkennari kynnti niðurstöður úr BA ritgerð sinni í þroskaþjálfafræðum „Aðstoð hesta í lífi einhverfra einstaklinga. Einnig kynnti hún starf hestamannafélagsins Harðar sem er fyrsta hestamannafélagið sem skipuleggur reiðnámskeið fyrir einstaklinga með fötlun. Hún kallaði einnig eftir því að Hestamannafélögin á stórhöfuðborgarsvæðinu / landsbyggðinni lýsi yfir vilja til stofnunar sameiginlegs félags um reiðskóla fatlaðra á Höfuðborgarsvæðinu / landsbyggðinni, en eftirspurnin eftir slíkum reiðskóla er mikil. Því var vel tekið  

Mette Mannseth yfirreiðkennari á Hólum og Þórarinn Alvar Þórarinsson frá þróunar- og fræsðslusviði ÍSÍ kynntu þjálfarastig LH. LH, Hólaskóli og ÍSÍ unnu á árinu að því að gera námsskrá fyrir þjálfaramenntun hestamanna sem er sambærileg við þjálfarastig innan annarra sérgreinasambanda ÍSÍ. Þvi verki er nú lokið og hafa grunndrög að 5 stiga menntakerfi verið samþykkt innan mennntanefndar LH og þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ. Þetta er afar spennandi samvinnuverkefni sem gefur ungu fólki tækifæri til að mennta sig sem þjálfarar og verður LH fyrsta aðildafélag ÍSÍ sem klárar námsskrá fyrir öll fimm stig þjálfaramenntunnar. 

Þórdís Anna Gylfadóttir kynnti markaðsverkefnið HORSES OF ICELAND. Það hófst árið 2015 þegar allir stærstu hagsmunaaðilar innan hestamennskunnar tóku höndum saman og fengu með sér í lið Íslandsstofu og stjórnvöld til að vinna að því að auka vitund fólks og styrkja ímynd íslenska hestsins á heimsvísu með samhæfðu markaðsstarfi undir slagorðinu „BRINGS YOU CLOSER TO NATURE“. Allir þeir sem tengjast íslenska hestinum á einn eða annan hátt geta tekið þátt í þessu frábæra verkefni og gerst samstarfsaðilar þess. Nú þegar standa um 60 samstarfsaðilar að baki verkefnisins. Íslenski hesturinn heillar fólk um heim allan og hefur safnað stórum hópi fylgjenda á samfélagsmiðlum sem við eigum í reglulegum samskiptum við og deilir upplifun sinni á Facebook og Instagram. Við hvetjum alla til þess að kynna sér verkefnið enn frekar á heimasíðu þess, www.horsesoficeland.is, og samfélagsmiðlum, www.facebook.com/horsesoficeland og www.instagram.com/horsesoficeland

Halldór Halldórsson formaður ferða- og samgöngunefndar LH kynnti samantekt af málþingi LH um úrbætur í reiðvegamálum sem haldið var 24.október síðastliðin. Málþingið var vel sótt, áhugaverð erindi og mjög góðar umræður sköpuðust. Fundurinn samþykkti ályktun sem send verður á næstu ríkisstjórn, þar sem meðal annars er skorað á stjórnvöld að úthluta meira fjármagni til reiðvega. Skipaður var starfshópur til að fylgja ályktuninni eftir og að skoða sjóði sem hægt er að sækja um í. Hér má lesa ályktunina.

Eftir erindin var fundarmönnum skipt upp í þrjá hópa, formenn, gjaldkera og æskulýðsfulltrúa. Þar var meðal annars rætt um sjálfboðaliðastarf, dag íslenska hestsins, landsþing, rekstur reiðhalla og móta, beitargjöld, hestamennsku í skólum, hestaklúbba og ÍSÍ verkefnið sýnum karakter.

Í lokin var boðið upp á veitingar á Cafe Easy

Fundargerð verður birt síðar á vef LH