Andlát: Sigurður Sigmundsson

Siggi bar gullmerki LH með stolti.
Siggi bar gullmerki LH með stolti.
Sigurður Sigmundsson ljósmyndari, bóndi og fréttaritari Morgunblaðsins og Sunnlenska fréttablaðsins, er látinn, 75 ára að aldri. Hann lést í gær á heimili sínu að Vesturbrún á Flúðum.

Sigurður Sigmundsson ljósmyndari, bóndi og fréttaritari Morgunblaðsins og Sunnlenska fréttablaðsins, er látinn, 75 ára að aldri. Hann lést í gær á heimili sínu að Vesturbrún á Flúðum.

Siggi Sigmunds eins og hann var jafnan kallaður innan hestamennskunnar fæddist að Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi 16. mars 1938. Foreldrar hans voru Sigmundur Sigurðsson, bóndi og fyrrverandi oddviti, og Anna Jóhannesdóttir húsfreyja. Systkini Sigurðar eru Alda, f. 10.4. 1930, d. 18.11. 1931, Jóhannes, f. 18.11. 1931, Alda Kristjana, f. 17.6. 1933, Sigurgeir Óskar, f. 16.3. 1938, d. 9.2. 1997 og Sverrir Sigmundsson, fæddur 13. september 1944.

Siggi lærði búfræði á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan árið 1959. Hann vann m.a. sem bóndi, tamningamaður og ritstjórnarfulltrúi hjá Eiðfaxa á árunum 1980-1997.

Við hestamenn þekktum Sigga sem hestaljósmyndara, mjög góðan. Hann fylgdist með hestamannamótum, stórum sem smáum og mætti með myndavélina til að ná gæðingum og mannlífi á filmu. Eftir hann liggur gríðarmikið safn ljósmynda, bæði af hestum og eins úr starfi hans fyrir Morgunblaðið. Hann hlaut ljósmyndaverðlaun Morgunblaðsins sex sinnum á árunum 1994 til 1998.

Sveitungar Sigga þekkja vel til félagsstarfa hans og sat hann í stjórn hestamannafélagsins Smára árin 1963-1973, enda áttu hestar og hestamennska hug hans allan.

Sigurður Sigmundsson var heiðursfélagi í LH og við kveðjum okkar félaga með þökkum fyrir hans góða og mikla starf til handa hestamennskunni.  Fjölskyldunni sendum við hlýjar samúðarkveðjur.

Landssamband hestamannafélaga