Andlát, Leifur Kr. Jóhannesson

26. júlí 2023
Fréttir
Leifur Kr. Jóhannesson

Leifur Kr. Jóhannesson fyrrverandi formaður LH  lést  laugardaginn 22. júlí níræður að aldri. Hann var fæddur á Saurum í Helgafellssveit 12 nóvember 1932. Hann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri vorið 1954. Sumarið á milli námsáranna vann hann á Hvanneyrarbúinu.

Sumarið eftir námið starfaði hann á forsetabúinu á Bessastöðum. Síðan nam hann við framhaldsdeildina á Hvanneyri (nú Búvísindadeild Landbúnaðarháskólans) og lauk þaðan kandídatsprófi í búfræði vorið 1957. 

Hann tók þátt í fyrstu skeifukeppninni á Hvanneyri vorið 1957 á hryssunni Ljónslöpp frá Krossi í Lundarreykjadal og lenti í 2. sæti á eftir Erni Þorleifssyni síðar bónda í Húsey. Seldi svo Ljónslöpp Skúla Kristjónssyni í Svignaskarði um vorið. Hún átti þá eftir að vinna Faxaskeifuna og skila af sér þokkalegum afkvæmum.

Að námi loknu starfaði Leifur sem héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Austurlands með aðsetur á Egilsstöðum árin 1957 til 1959. Héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Snæfellinga árin 1959 til 1984. Jafnframt framkvæmdastjóri Búnaðarsambandsins og Ræktunarsambands Snæfellinga frá 1967 til 1984, með fjölskylduaðsetur í Stykkishólmi. Forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins frá 1984 til 1998 og Lánasjóðs landbúnaðarins 1999 til 2000.

Eitt af fyrstu verkum hans í ráðunauts starfinu var að undirbúa fjórðungsmót hestamanna í Egilsstaðaskógi árið 1957 og var hann þar í dómnefnd kynbótahrossa. Þegar yfir lauk hafði hann starfað í 12 dómnefndum kynbótahrossa á fjórðungs- og landsmótum, lengst af með Þorkeli Bjarnasyni hrossaræktarráðunaut en samstarf þeirra var einstaklega farsælt svo sem við stofnun og rekstur Stóðhestastöðvar ríkisins á Litla-Hrauni og í Gunnarsholti. Leifur sat í kynbótanefnd stöðvarinnar frá stofnun til 1984.

Leifur hafði frumkvæði að stofnun hestamannafélagsins Snæfellings og sat í stjórn þess sem gjaldkeri fyrstu 9 árin.

Fljótlega eftir stofnun félagsins beitti hann sér fyrir stofnun  hrossaræktarsamband Vesturlands og var gjaldkeri þess fyrstu 13 árin.  

Hann tók þátt  í landsþingum hestamanna, var varamaður í stjórn LH í 8 ár, varaformaður 1985 til 1986 og formaður 1986 til 1988. Baðst þá undan endurkjöri. Formannstíð Leifs var litrík þó stutt væri og bar þar hæst ágreining um landsmótsstað sem hann leysti af festu og í lýðræðisanda.

Leifur vann ötullega að inngöngu hestamanna í ÍSÍ og þeir Sigurður Magnússon fr.kv.stj. ÍSÍ þeystu um land allt sumarið 1988 til að hvetja félögin til að stofna íþróttadeildir sem síðan sameinuðust  og stofnuðu Hestaíþróttasambandi Íslands 17. maí 1989.

Leifur var alla tíð öflugur hrossaræktandi, áhugasamur til hinsta dags og af hans ræktun er þekktust heiðursverðlauna hryssan Þota frá Innra-Leiti sem er öllum minnisstæð sem hana þekktu.

Ekki verður Leifs minnst án þess að geta eiginkonu hans heitinnar, Maríu S. Gísladóttir frá Skáleyjum sem bjó manni sínum og fimm börnum þeirra fagurt heimili í ástríku og farsælu hjónabandi.

Hestamenn og hrossaræktendur um heim allan standa í mikilli þakkarskuld við Leif Kr. Jóhannesson og LH þakkar honum ævilangan og farsælan feril í þágu hestamennskunnar. Blessuð sé minning hans.