Ályktun haustfundar Dýralæknafélags Íslands

26. nóvember 2012
Fréttir
Ályktun haustfundar Dýralæknafélags Íslands varðandi áverka í munni keppnis- og sýningahrossa 2012.

Félagsfundur Dýralæknafélags Íslands, haldinn í Reykjavík 24. nóvember 2012, fagnar ný útkominni skýrslu Matvæalastofnunar um heilbrigðisskoðun keppnis- og sýningahrossa  árið 2012 um leið og harmað er að áverkar í munni hrossa skuli vera eins algengir og raun ber vitni. Dýralæknar hafa áhyggjur af sí auknum kröfum sem gerðar eru til keppnis- og sýningahrossa hér á landi. Samkvæmt skýrslu sérgreinadýralæknis hrossasjúkdóma var tæpur helmingur hrossa með áverka fyrir keppni, en þeim bæði fjölgaði og urðu alvarlegri eftir því sem leið á mótin þannig að rúmur helmingur  hrossa sem kepptu til úrslita á stórmótum 2012 reyndust með áverka, þar af 16%-34% með alvarlega áverka. Alvarlegustu áverkarnir reyndust vera yfir kjálkabeininu á tannlausa bilinu, sem er mjög viðkvæmt svæði. Þessir áverkar eru nátengdir notkun stangaméla með tunguboga.

Dýralæknafélag Íslands skorar á Landssamband Hestamannafélaga og Bændasamtök Íslands að banna notkun þessa beislabúnaðar í keppni og sýningum og hvetur þá til að þróa nú þegar hestvænni kynbótasýningar, keppnisgreinar, -reglur og dómgæslu.

Dýralæknafélag Íslands skorar jafnframt á Matvælastofnun að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar með því að stuðla að setningu reglna sem koma í veg fyrir noktun þessa beislisbúnaðar.  Auk reglna sem geta stuðlað að bættri meðferð hrossa í keppni og sýningum.

Síðast en ekki síst þá hvetur fundurinn alla dýralækna til að leggja sitt af mörkum til fyrirbyggjandi aðgerða, svo sem með fræðslu til knapa auk vandaðra greininga og meðhöndlana á mögulegum undirliggjandi vandamálum.

Guðbjörg Þorvarðardóttir
Formaður DÍ