Álfur ofl. með afkvæmum á Stóðhestaveislu

31. mars 2010
Fréttir
Mynd: Álfur frá Selfossi. Ljósm: HGG
Nokkrir af þeim stóðhestum sem fram koma á Stóðhestaveislunni á Hellu verða sýndir með afkvæmum. Fyrir áhugafólk um ræktun er alltaf spennandi að sjá afkvæmi og verður gaman að berja hópana augum. Nokkrir af þeim stóðhestum sem fram koma á Stóðhestaveislunni á Hellu verða sýndir með afkvæmum. Fyrir áhugafólk um ræktun er alltaf spennandi að sjá afkvæmi og verður gaman að berja hópana augum. Þeir hestar sem áætlað er að komi fram með einhverjum afkvæma sinna eru Álfur frá Selfossi, Aron frá Strandarhöfði, Rammi frá Búlandi, Leiftur frá Akurgerði, Vígar frá Skarði og Borði frá Fellskoti. Einnig munu þeir Arður frá Brautarholti, Fláki frá Blesastöðum og Þokki frá Hofi I koma fram með systkinum sínum sem gefur líka skemmtilega innsýn í fjölskyldusvip og ræktunareinkenni. Síðast en ekki síst mun heiðurshesturinn Orri frá Þúfu koma fram með nokkrum afkvæma sinna, auk allra hinna glæsihestanna sem verða sýndir einir. 
Forsala á Stóðhestaveisluna hefur gengið mjög vel, en hún fer fram í Ástund í Reykjavík, Baldvin og Þorvaldi á Selfossi og í verslun Fóðurblöndunnar á Hvolsvelli. Einnig verða seldir miðar í hléi á Dymbilvikusýningu Gusts í kvöld. Miðaverð er kr. 3.000 og innifalið í því er glæsilegt 84 síðna stóðhestablað. Stóðhestaveislan hefst kl. 14 á laugardaginn og tilvalið fyrir hestafólk að taka sér bíltúr á Hellu, sjá spúandi eldfjall og sprúðlandi góða hesta, allt í einni ferð!