Álfamær frá Prestbæ fyrsta hryssan til að vinna A flokk á Landsmóti

07.07.2024

Vá vá vá! Þá er stórglæsilegu Landsmóti í Víðidal lokið! Landsmót 2024 hefur verið veisla frá degi eitt, frábærir hestar, frábærar aðstæður og stútfull brekka af fólki allt mótið.

Dagurinn í dag hófst á úrslitum í Tölti T2 þar sem Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði áttu glæsilega sýningu og sigruðu örugglega með 8,96 í einkunn. Fjórgangurinn var þá næstur og þar vor það Gústaf Ásgeir Hinriksson og Assa frá Miðhúsum sem sigruðu með 8,30. Þá var komið að fimmganginum og þar voru það þau Jón Ársæll Bergmann og Harpa frá Höskuldsstöðum sem voru efst eftir forkeppnina og sú forysta var aldrei í hættu, en þau sigruðu með 7,86 í einkunn. Jón Ársæll keppir í ungmennaflokk en sýnir það og sannar enn einu sinni hversu ótrúlegir hæfileikar og gæði eru að finna í ungu knöpunum okkar, framtíðin er sannarlega björt.

Eftir hádegi var svo komið að úrslitum í barnaflokki. Þar var boðið uppá ótrúlegar sýningar. Þrír keppendur hafa deilt efstu sætunum uppúr sérstakri forkeppni, þau Elimar Elvarsson á Sölku frá Hólateig, Linda Guðbjörg Friðriksdóttir og Sjóður frá Kirkjubæ og Viktoría Huld Hannesdóttir og Þinur frá Enni og þau röðuðu sér einnig í efstu þrjú sætin í dag. En það var hún Viktoría Huld Hannesdóttir og Þinur frá Enni sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir magnaða sýningu og einkunn upp á 9,25.

Í unglingaflokki var engu minni spenna en þar voru það þær Ída Mekkín Hlynsdóttir og Marín frá Lækjarbrekku 2 sem sigruðu með 8,96 en í öðru sæti og rétt við hælana á þeim voru sigurvegarar B úrslitanna þær Svandís Aitken Sævarsdóttir og Fjöður frá Hrísakoti með 8,93 í einkunn.

B flokkur gæðinga kom næstur og þar var heldur betur spennandi keppni háð og mjótt á munum milli efstu knapa en Safír frá Mosfellsbæ og Sigurður Vignir Matthíasson unnu með 9,02 í einkunn en rétt á eftir þeim voru þeir Þröstur frá Kolsholti 2 og Helgi Þór Guðjónsson með 9,00 í einkunn.

Í B flokki ungmenna komu þrusu sýningar, en þó var eins og það væri skrifað í skýin að Matthías Sigurðsson (sonur Sigurðar Vignis) og Tumi frá Jarðbrú væru að fara að taka þetta, þeir áttu frábæran dag uppskáru fyrsta sætið með einkunnina 9,03. Þvílíkt afrek hjá þeim feðgum.

Deginum lauk svo á háspennu keppni á A flokki gæðinga, þar hélst spennan fram á síðasta sprett en að lokum var það Álfamær frá Prestbæ og Árni Björn Pálsson sem stóðu uppi sem sigurvegarar með 9,05 í einkunn. Þess má geta að Álfamær er fyrsta hryssan til að vinna A flokk gæðinga á Landsmóti. Glæsilegur árangur!

Til hamingju sigurvegarar, þátttakendur, starfsmenn, sjálfboðaliðar og hestamenn allir með frábært Landsmót. Sjáumst á Hólum 2026!