Áhorfendabanni á íþróttaviðburðum aflétt

29. ágúst 2020
Fréttir

Sóttvarnaryfirvöld hafa í dag, 29. ágúst, veitt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru að 2 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 100 manns að hámarki á svæðinu. 

Sóttvarnarreglur LH hafa verið uppfærðar og er breytingin á þessa leið:

Til samræmis við 5. gr auglýsingar heilbrigðisráðherra dags. 25. ágúst 2020 er heimilt að hafa áhorfendur á hestaíþróttaviðburðum með eftirfarandi skilyrðum:

a. Áhorfendur eru leyfðir með því skilyrði að ávallt sé gætt að 2 metra bili milli ótengdra aðila en þó aldrei fleiri en 100 (eða það hámark sem fram kemur í auglýsingu ráðherra hverju sinni).

b. Litið verði á áhorfendasvæði sem eitt rými, ekki verði því unnt að skipta svæðinu í fleiri rými eða hólf.

c. 2 metra reglan gildir milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, sbr. 1. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar. Að öðru leyti skuli dreifa áhorfendum eins mikið og unnt er.

d. Mótshaldarar beri ábyrgð á að ekki verði hópamyndun á meðan á móti stendur eða fyrir eða eftir mót inni á svæði sem og beint fyrir utan það.

e. Fjölda- og nálægðartakmörkun auglýsingar ráðherra tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

f. Með nánum tengslum er fyrst og fremst á átt við nánustu fjölskyldu, þó ekki endilega einungis þá sem deila heimili, nánustu vini og eftir atvikum fáeina nána samstarfsmenn. Þannig sé t.d. ekki unnt að líta svo á að einstaklingur sé í nánum tengslum í þessum skilningi við alla vinnufélaga sína en mögulega einn til fjóra sem viðkomandi starfar mest með eða er í mesta návígi við. Þetta getur t.d. átt við um sessunauta á skrifstofu eða þá sem ferðast saman í bíl við vinnu sína, s.s. lögreglumenn. Í þessu sambandi er mikilvægt að alltaf sé um sömu nánu samstarfsmennina að ræða. Mikilvægt er að alltaf sé um sömu nánu aðila að ræða en að það breytist ekki dag frá degi.

g. Hver einstaklingur þarf að huga að og bera ábyrgð á eigin 2 metra nálægðartakmörkun eins og öðrum einstaklingsbundnum sýkingavörnum.