Aganefnd LH hafnar endurupptöku máls

23. janúar 2021
Fréttir

Þann 10. desember 2020 úrskurðaði Aganefnd LH að fella skyldi út allan árangur á Metamóti Spretts, sem haldið var dagana 4. til 6. september 2020, úr Sportfeng. Var það gert í ljósi þess að mótsskýrsla sem lá fyrir af Metamóti var að mati Agenefndar ekki í lögmætu formi og beinlínis röng og nýrri leiðréttri skýrslu hafi ekki verið skilað inn þrátt fyrir áskorun þar um. Mótið hefði því ekki talist löglegt og allur árangur á því felldur út.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar óskaði stjórn Spretts eftir því að fá að skila inn réttri mótaskýrslu fyrir Metamót og fá að skrá hana í Sportfeng. Að höfðu samráði við Laganefnd LH ákvað stjórn LH að verða við beiðni Spretts um að skila inn leiðréttri mótaskýrslu enda sá stjórn og laganefnd ekkert sem beinlínis bannaði slíka málsmeðferð. Í framhaldinu var málinu vísað aftur til Aganefndar til umsagnar og ákvörðunar um hvort Aganefnd teldi ástæðu til að endurupptaka fyrri úrskurð með hliðsjón af leiðréttri mótaskýrslu.

Eftir að hafa farið yfir málið og í ljósi þess að fyrri úrskurður hefur verið kærður til dómstóls ÍSÍ er það niðustaða Aganefndar að hafna því að endurupptaka málið.

Telur Aganefnd rétt að æðri dómstóll fjalli um málið á þessu stigi, enda hafa tveir aðilar þegar kært úrskurðinn til dómstóls ÍSÍ. Bendir Aganefnd á að ákvörðun þessi er kæranleg til dómstóls ÍSÍ.

Ákvörðun Aganefndar má lesa hér.