Æfingamót hjá Létti

05. maí 2010
Fréttir
Haldið verður æfingamót fyrir börn og unglinga í Létti sunnudaginn 9. maí. Keppt verður í Tölt T1 og T8 – Fjórgangur V1. Leyfilegt er að mæta að hámarki með 2 hross og má skrá sig í eina töltgrein og fjórgang (leyfilegt er að mæta með báða hestana í báðar greinarnar). Haldið verður æfingamót fyrir börn og unglinga í Létti sunnudaginn 9. maí. Keppt verður í Tölt T1 og T8 – Fjórgangur V1. Leyfilegt er að mæta að hámarki með 2 hross og má skrá sig í eina töltgrein og fjórgang (leyfilegt er að mæta með báða hestana í báðar greinarnar). Ekki verða riðin úrslit né raðað í sæti þar sem þetta er einungis æfingamót og fær knapinn skriflega umsögn að móti loknu. Skráning er á staðnum og tekið er á móti skráningum frá kl. 13:00 til 13:30.
Snyrtilegur klæðnaður æskilegur en ekki er nauðsyn að vera í keppnisgallanum frekar en þið viljið. Mótið verður haldið úti ef veður leyfir.

Tölt – T1
Hestar sem taka þátt í þessari töltgrein mega ekki taka þátt í annarri töltgrein á sama móti.
Einn keppir í einu.

Verkefni
1.    Keppni hefst á miðri skammhlið, riðinn er einn hringur á hægu tölti upp á hvora hönd sem er. Hægt niður á fet á miðri skammhlið og skipt um hönd
2.    Riðið er af stað á miðri skammhlið á hægu tölti og riðinn einn hringur með greinilegum hraðamun á langhliðum.
3.    Frá miðri skammhlið er riðinn einn hringur á yfirferðartölti.

Tölt - T8
Hestar sem taka þátt í þessari töltgrein mega ekki taka þátt í annarri töltgrein á sama móti.
2 eða fleiri eru inná vellinum í einu, atriði eru sýnd samkvæmt fyrirmælum þular.
Verkefni
1.    Frjáls ferð á tölti – hægt niður á fet og skipt um hönd
2.    Frjáls ferð á tölti

Fjórgangur - V1
Hestar sem taka þátt í þessari grein mega ekki taka þátt í öðrum fjór – eða fimmgangsgreinum á sama móti.
Einn keppir í einu. Sýna má greinina á hvora hönd sem er.

Knapinn hefur fjóra og hálfan hring til umráða til að sýna eftirfarandi gangtegundir í þeirri röð sem þeir sjálfir kjósa.

1.    Hægt tölt
2.    Hægt - til milliferðar brokk
3.    Meðalfet
4.    Hægt – til milliferðar stökk
5.    Yfirferðartölt
Einungis má sýna hverja gangtegund einu sinni. Fet skal sýna hálfan hring og aðrar gangtegundir heilan hring.

Æskulýðsnefnd Léttis.