Að loknu HM í Berlín

Ágætu félagar, nú er lokið tuttugasta heimsmeistaramóti íslenska hestsins en mótið fór fram 4. til 11. ágúst síðastliðinn í Berlín. Í kynningum og markaðsetningu var miklu lofað. Var þetta í fyrsta skipti sem mótið var haldið í stórborg og því góð stemning fyrir mótinu.

Ágætu félagar,

nú er lokið tuttugasta heimsmeistaramóti íslenska hestsins en mótið fór fram 4. til 11. ágúst síðastliðinn í Berlín. Í kynningum og markaðsetningu var miklu lofað. Var þetta í fyrsta skipti sem mótið var haldið í stórborg og því góð stemning fyrir mótinu. Vonast var eftir nýjum viðmiðum og nýjum tækifærum í kjölfarið til að koma meira lífi í Íslandshestamennskuna og þá starfsemi sem henni tengist og hefur átt á brattan að sækja síðustu ár.

Mótið var markaðssett sem “stóra“ mótið af mótshöldurum. Einnig kom sendiráð Íslands í Berlín óbeint að markaðsetningu ásamt íslenskum stjórnvöldum og félagasamtökum með sýningunni “TÖLT” sem Ragna Fróðadóttir sá um. Var sýningin nokkurs konar upphaf fyrir mótið í borginni og vel á tólfta þúsund manns hafa séð. Var hún skemmtilegt upphaf á þessu móti.

FEIF átti sniðuga hugmynd að hópreið allra aðildarlanda samtakanna, sem mótshaldarar síðan framkvæmdu. Hópreiðin á mótið hófst annars vegar niður í Austurríki og Sviss og hins vegar í Belgíu, Hollandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Fylkingarnar sameinuðust svo fyrir utan Berlín og á Götu 17. júní við Brandenborgarhliðið. Þessi hópreið sameinaði unnendur íslenska hestsins og ríkti mikið stolt og gleði í hópnum er hann reið að Brandenborgarhliðinu og var glæsilegt myndrænt upphaf mótsins. Fullyrða má að þessi atburður hafi náð mun meiri athygli en mótið sjálft í fjölmiðlum í Þýskalandi, þar sem í kjölfarið var fjallað um íslenska hestinn á mjög jákvæðan hátt sem öruggan frístunda- og fjölskylduhest, sem gerir þennan viðburð að einum stærsta markaðsglugga sem hesturinn hefur lengi fengið. Þarna voru hundruðir áhugareiðmanna mættir með tár á hvarmi af stolti yfir að fá að taka þátt í þessum viðburði. Höfðu margir lagt á sig mikinn kostnað og erfiði til þess. Var ekki hægt annað en að dást að þessum þátttakendum sem minntu okkur á hvar ræturnar liggja, þegar við veltum fyrir okkur þeirri staðreynd að okkur fjölgar ekki sem skildi og bilið á milli hins almenna hestamanns og keppnismanns virðist vera að aukast.

Áhorfendur á þessu móti voru rúm þrettán þúsund og er það gleðilegt miðað við síðustu tvo mót þar sem á milli 4 og 7 þúsund manns voru. En ef litið er til mótanna 1999 í Rieden þar sem nítján þúsund áhorfendur voru, 2003 í Herning þar sem fimmtán þúsund mættu og í Hollandi 2007 þar sem tólf þúsund manns voru, verðum við að velta fyrir okkur hvert við stefnum með áherslur okkar í Íslandshestamennskunni. Hvernig er hesturinn markaðsettur? Hver ber ábyrgð á markaðssetningu hestsins? Út frá hvaða sjónarmiðum eru áherslur í kynbótastarfi settar og hver setur þær? Fyrir hvern er verið að rækta hestinn? Hvar liggur fjöldinn í iðkendum hans? Hvernig stækkum við hópinn sem stundar Íslandshestamennskuna svo allir njóti góðs af? Þessum spurningum og fleirum þurfum við að svara til að komast upp úr þeim hjólförum sem Íslandshestamennskan hefur lent í.

Mótið hófst mánudaginn 5. ágúst á gamalgrónu hestasvæði sem nú er í uppbyggingu. Þar var aðbúnaður að hestum og knöpum ekki nógu góður miðað við að um heimsmeistaramót væri að ræða. Hestarnir voru í tjöldum sem stóðu ofan á sandi en þar var hvorki loftræsti- né kælibúnaður þannig að hitinn í þeim nálgaðist fimmtíu gráður þegar verst lét. Svæðið í kringum hesthúsin var svo allt laust í sér og mikið ryk. Aðbúnaður að áhorfendum vakti einnig margar spurningar. Sjónarhorn þeirra sem sátu í yfirbyggðu stúkunni var ekki nógu gott og varla boðlegt á svona móti. Hrossin sáust aðeins heilstætt á skammhliðum. Á langhlið fjær stúku sáum við hrossunum bregða fyrir milli toppa dómhúsa og á langhlið nær stúku sáum við ofan á knapa ef þeir riðu ekki innst í braut. Sjónarhornið var þó eitthvað skárra í hinni stúkunni. Þessi aðbúnaður áhorfenda og knapa verður að teljast óviðunandi þó ekki sé dýpra í árina tekið. Upplýsingaflæði var ekki heldur í nógu góðu lagi miðað við síðustu mót og þá tækni sem til er og var á staðnum. Var stór skjárinn ekki nógu vel nýttur til að koma á framfæri upplýsingum til áhorfenda og keppenda um dagskrá, úrslit og annað sem snéri að þeim til að njóta þess sem fram fór. Mest öll kynning fór svo fram á þýsku og þýdd yfir á ensku. Hefði þetta átt að vera öfugt, þar sem enska er aðal mál FEIF og stór hluti áhorfenda ekki með þá þýskukunnáttu sem þarf til að skilja það sem fram fór. Þrátt fyrir þessa ágalla reyndu menn að bera sig vel og hafa gaman að þessum viðburði sem tókst annars nokkuð vel.

Landsamband hestamannafélaga sá um undirbúning og þátttöku fyrir Íslands hönd á þessu móti. Árangur okkar á þessu móti verður að teljast nokkuð góður þegar litið er til fyrri móta. Afrek þeirra Jóhanns R. Skúlasonar í tölti og Bergþórs Eggertssonar og Konráðs Vals Sveinssonar í skeiði verða að teljast standa upp úr á þessu móti að öllum öðrum knöpum ólöstuðum. Liðið okkar stóð sig með miklum sóma við erfiðar aðstæður og var góður vitnisburður okkar um faglegan undirbúning og góða reiðmennsku. Á þessu móti voru í fyrsta skipti riðin sérstök úrslit ungmenna sem mæltist vel fyrir og er komið til að vera. Með þeirri framkvæmd gefst ungmennum betra tækifæri á að taka þátt í þessum stóra viðburði og öðlast um leið meiri reynslu og þroska sem eflir þau og styrkir ef rétt er á málum haldið. LH og hestamannafélögin þurfa nú sem áður að móti loknu að ræða og bæta markmið sín og afreksstefnu til að tryggja að okkar fulltrúar á mótum verði ávallt í fremstu röð í öllum undirbúningi og reiðmennsku.

Þátttaka í heimsleikum íslenska hestsins kostar mikla peninga og undirbúning, sem unninn er af mörgum aðilum. Fyrir hönd LH vil ég þakka, ÍSÍ, BÍ, ríki, sjálfboðaliðum, félögum, samstarfsaðilum og einstaklingum sem studdu við undirbúning liðsins og gerðu okkur þannig mögulegt að senda lið á HM. Við í LH þurfum að skoða hvernig staðið verður að þessum undirbúningi og kostnaði sem honum fylgir í framtíðinni. Við getum ekki byggt okkar undirbúning til framtíðar á fjárstyrk frá ríki, og ekki er sjálfgefið að félagskerfið beri allan þungann af undirbúningi en ágóðinn fari í aðra vasa. Landsliðsnefnd LH undir forystu Bjarnleifs Bjarnleifssonar bar hitann og þungann af undirbúningi okkar liðs ásamt liðsstjóra landsliðsins og skrifstofu LH. Mikil ábyrð og vinna hvílir á þessum aðilum og eru þeir tímar og kílómetrar sem fara í undirbúning taldir í hundruðum ef ekki þúsundum. Þökk sé þeim fyrir sitt framlag. Það er einnig gott og hollt fyrir okkur hestamenn þegar við ræðum þessi mál að hafa þá staðreynd í huga, að HM íslenska hestsins er borið uppi af sjálfboðaliðum sem skipta hundruðum hvar sem það er haldið, án þeirra væri ekkert mót haldið. Þá er undirbúningur FEIF landa sem þátt taka í þessum viðburði að mestu leyti unnin í sjálfboðaliðsvinnu. Það eru hins vegar margir sem njóta góðs af þessari sjálfboðavinnu og er það vel. Menn verða þó að virða og skilja að það er starf hestamannafélaganna innan FEIF sem bera uppi Íslandshestamennskuna. Vilji menn efla hana verður að efla félögin og FEIF, aðeins þannig hefjum við nýja sókn með íslenska hestinn.

Ég vil svo færa forseta Íslands og frú, sjávar-, landbúnaðar og umhverfisráðherra og frú, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra og sendiherra Íslands í Berlín og hans fólki sérstakar þakkir fyrir þeirra aðkomu að þessu móti.

Haraldur Þórarinsson,
formaður LH