Reglugerð aganefndar

1. grein.
Stjórn LH skal skipa aganefnd á fyrsta fundi sínum eftir ársþing. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og einum til vara. Stjórn LH skipar formann.

2. grein.
Aganefnd fjallar um brot keppenda og starfsmanna á hestamótum og í tengslum við þau sem LH er aðili að. Aganefnd hefur heimild til að veita starfsmönnum móta áminningu.

3. grein.
Aganefnd fjallar um skýrslur yfirdómnefnda móta og ákvarðar refsingu fyrir brot á keppnisreglum og reglugerðum LH, þ.á.m. reglum um ferðalög innanlands og utan.

4. grein.
Brot innan keppnistímabils virkar til þyngingar refsingar þannig að fái sami keppandi þrjár áminningar án spjalds á sama keppnistímabili jafngildir það gulu spjaldi. Fái keppandi tvö gul spjöld á sama keppnistímabili jafngildir það rauðu spjaldi.

5. grein.
Fái keppandi frávísun með rauðu spjaldi ákveður aganefnd lengd keppnisbanns, sem skal miða við tímabil í mánuðum, en ekki fjölda móta. Bannið getur varað frá því að keppandi verði einungis útilokaður frá mótinu, sem brotið var framið á, sem skal vera vægasta refsing og allt að 24 mánuðum. Vari keppnisbann lengur en þeir dagar sem mótið varir, sem brotið var framið á, skal miða við mánuð í senn, þannig að keppnisbann verði í heilum mánuðum. Upphafsdag keppnisbanns skal telja upphafsdag móts þess, sem brot var framið á.

6. grein.
Gerist keppendur, fararstjórar, þjálfarar, liðsstjórar eða aðrir fulltrúar brotlegir gegn reglum um ferðalög innanlands og utan skal fararstjóri kynna Aganefnd skýrslu um brotið eigi síðar en 48 tímum eftir heimkomu viðkomandi aðila. Ennfremur er keppendum heimilt með sama hætti að kæra til aganefndar meint brot fararstjórnar. Telji aganefnd brot viðkomandi aðila alvarlegt er heimilt að beita þeim agaviðurlögum sem fram koma í 4. og/eða 5.grein hér að framan eftir því sem við á í hverju tilviki.

7. grein
Aganefnd skal gefa hinum brotlega kost á að senda skriflega skýrslu um atvikið, sé það alvarlegs eðlis, og óskir berast um það frá viðkomandi aðila innan 48 tíma frá lokum móts.

8. grein.
Aganefnd kemur eins oft saman og þurfa þykir. Hún skal kveða upp úrskurði sína innan 3 sólahringa frá því að skýrsla yfirdómnefndar berst nefndinni. Skýrslur skulu sendar í bréfsíma eða tölvupósti innan 48 tíma frá mótslokum.
Jafnframt skal frumrit af skýrslum yfirdómnefndar póstlagðar og sendar aganefnd.

9. grein
Úrskurð aganefndar skal tilkynna hinum brotlega með símskeyti og skal móttökustimpill frá póst/símstöð gilda. Úrskurðurinn skal berast skrifstofu LH innan sólarhrings, sem tilkynnir það aðildarfélögum fyrsta virka dag eftir að hann berst skrifstofunni.

Reglugerð samþykkt á þingi LH í Borgarnesi 30. október 1999