Landsþing

Landsþing LH er haldið annað hvert ár í október eða nóvember. Í lögum og reglum LH segir orðrétt um Landsþing:

1.2.2 Landsþing

Landsþing fer með æðsta vald í málefnum LH. Þingið sitja fulltrúar frá hestamannafélögum í landinu. Fulltrúafjöldi fer eftir félagatölu hvers hestamannafélags sem hér segir:

 • Félög með færri en 75 félagsmenn fá einn fulltrúa,
 • félög með 76-150 félagsmenn fá tvo fulltrúa,
 • félög með 151-225 félagsmenn fá þrjá fulltrúa o.s.frv.

Aðeins sá sem er í hestamannafélagi er kjörgengur fulltrúi viðkomandi sérráðs eða héraðssambands á landsþingi LH. Það er jafnframt skilyrði fyrir kjörgengi að viðkomandi hestamannafélag sé í skilum með gjöld til LH.
Þingið skal háð annað hvert ár í október- eða nóvembermánuði. Skal boða það bréflega með minnst 8 vikna fyrirvara. Málefni sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn LH minnst 4 vikum fyrir þingið. Þá skal stjórn LH tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum sem borist hafa í síðasta lagi 2 vikum fyrir þingið.

Allar breytingartillögur á keppnisreglum skulu berast keppnisnefnd LH og laganefnd LH hið minnta 3 mánuðum fyrir upphaf landsþings. Tillögurnar skulu sendar skrifstofu LH sem aftur kemur þeim á viðkomandi nefndir og bókar móttökudag þeirra. Keppnisnefnd og laganefnd skulu fara yfir tillögurnar, kosti þeirra og galla og veita umsögn sína um þær, séu þær þingtækar. Skal sú umsögn fylgja tillögunum inn á landsþing. Við meðferð tillagnanna afla nefndirnar sér þeirra upplýsinga sem þarf, kalla til aðila og veita síðan vandaða umsögn um tillöguna.

Landsþingi skal stýrt eftir almennum þingsköpum.

Landsþing er lögmætt ef löglega hefur verið til þess boðað.

1.2.3 Atkvæðisréttur á landsþingi

Á landsþinginu hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt. Hver fulltrúi hefur aðeins eitt atkvæði.

Þegar langt eða dýrt er að sækja þingið eða annar fulltrúi veikist eða forfallast á síðustu stundu frá að sækja þingið, getur landsþingið heimilað að fulltrúi fari með fleiri en eitt atkvæði, en aðeins með atkvæði þess félags sem hann er fulltrúi fyrir. Þó gildir þessi undanþága ekki um fulltrúa þeirra félaga, sem eiga heima þar sem þingið er háð. Umboðið, sem jafnframt er beiðni til þingsins um að fulltrúi megi fara með fleiri en eitt atkvæði, verður að vera skriflegt og vera frá stjórn hlutaðeigandi sambandsaðila.

Enginn fulltrúi getur farið með fleiri en tvö atkvæði.

Fulltrúum er skylt að starfa með nefndum skv. nánari ákvörðun þingsins, en hafa einungis atkvæðisrétt í einni nefnd þingsins.

Auk kjörinna fulltrúa eiga rétt á þingsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:

 • Stjórn LH, varastjórn, framkvæmdastjóri, endurskoðandi og skoðunarmenn
 • Forseti og framkvæmdastjórn ÍSÍ
 • Fulltrúi héraðssambanda/íþróttabandalaga
 • Formaður/fulltrúi nefnda LH
 • Formaður/fulltrúi GDLH og HÍDÍ
 • Formaður/fulltrúi Járningamannafélag Íslands

Auk þess getur stjórn LH boðið öðrum aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til.

1.2.4 Dagskrá landsþings

 • Þingsetning
 • Kosinn þingforseti, varaþingforseti, þingritari og varaþingritari
 • Kjör þingnefnda:
  • Fjárhagsnefnd (fimm menn)
  • Allsherjarnefnd (fimm menn)
  • Æskulýðsnefnd (fimm menn)
  • Keppnisnefnd (fimm menn)
  • Kynbótanefnd (fimm menn)
  • Ferða-og umhverfisnefnd (fimm menn)
  • Aðrar nefndir skv. ákvörðun þingsins
 • Lögð fram skýrsla stjórnar
 • Lagðir fram reikningar sambandsins til samþykktar. Skulu reikningarnir settir upp og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og áritaðir af skoðunarmönnum. Þá skal á landsþingi gerð grein fyrir rekstri fyrstu 8 - 9 mánuði ársins, sem er að líða
 • Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun til tveggja ára
 • Lagðar fram tillögur og mál sem borist hafa og lögð verða fyrir þingið
 • Landsþing taki ákvarðanir varðandi Íslandsmót samkvæmt reglugerðum þar um
 • Þinghlé
 • Þingnefndir skila störfum, umræður og atkvæðagreiðsla
 • Kosning stjórnar, varastjórnar og tveggja skoðunarmanna
 • Kosning fulltrúa á íþróttaþing ÍSÍ
 • Önnur mál
 • Þingfundargerð lesin og staðfest, eða þingforseta og riturum falin frágangur hennar.
 • Þingslit

Fái fleiri en þeir, sem kjósa á, jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingu sé að ræða; þá þarf 2/3 hluta atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa.

Þingið getur með 2/3 hluta atkvæða leyft að taka fyrir mál sem komið hafa fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum.

Skýrslu LH svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum LH innan tveggja mánaða frá þingslitum.

1.2.5 Aukaþing

Aukaþing skal halda þegar einn þriðji sambandsaðila óskar þess eða stjórn LH telur það nauðsynlegt.

Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa styttri en til reglulegs þings, þó ekki skemmri en 10 daga.

Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem hættur er í félaginu eða forfallast á annan hátt.

Á aukaþingi má ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt landsþing.