Öruggt umhverfi í hestaíþróttum

INNGANGUR

Landssamband hestamannafélaga leggur ríka áherslu á að allir iðkendur hestamennsku á Íslandi geti stundað íþrótt sína í öruggu umhverfi. Öruggt umhverfi hestamennskunnar nær til allra þátta félagsstarfsins, æfingar, mótahald og hvern þann vettvang sem félagsstarfið nær yfir.  

Hér á síðunni má finna upplýsingar um fræðslu og hvert er hægt að leita ef að grunur er um að öryggi iðkenda innan hestaíþróttanna sé ógnað á einhvern hátt.

Öruggt umhverfi íþróttastarfs, trúnaðarráð LH

Í undirbúningi er að stofna Trúnaðarráð Landssambands Hestamannafélaga sem hefur leiðbeinandi- og ráðgefandi hlutverk í málum sem snerta aga- og siðareglur sambandsins.

Trúnaðarráð er ráðgefandi um það til hvaða aðgerða ráðlagt sé að grípa til ef fram kemur kvörtun, rökstuddur grunur eða ábending um einelti, ofbeldi eða kynferðislega- eða kynbundna áreitni í tengslum við starfsemi á vegum eða ábyrgð sambandanna og aðildarfélaga þeirra.

Trúnaðarráð tekur við tilkynningum um áreiti, einelti og ofbeldi hvers konar, vinnur úr þeim og kemur í viðeigandi farveg eftir eðli málsins hverju sinni.

Hægt er að hafa samband við trúnaðarráð LH á tilkynning@lhhestar.is

Siðareglur og hegðunarviðmið LH má finna hér.

Tengsl trúnaðarráðs LH við aðildarfélögin

Fulltrúum hestamannafélaga er bent á að hafa samband við trúnaðarráð LH, til ráðgjafar þegar upp koma mál innan félags sem snúa að áreiti og ofbeldi hvers konar, og þiggja þar með aðstoð ráðsins við að koma málum þeim í farveg.

Ýmis mál eða grunur um þau getur komið upp hvar sem er, og alls staðar í íþróttastarfinu, á æfingum, á mótum og hverjum þeim vettvangi sem starf félaganna nær til.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

Allir eiga rétt á því að geta stundað sitt íþrótta- og/eða æskulýðsstarf í öruggu umhverfi.

Einnig eiga allir iðkendur; börn, unglingar og fullorðnir óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti að geta leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingar.

Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem styður við, leiðbeinir og aðstoðar þá sem hafa upplifað einhverskonar ofbeldi eða einelti í slíku starfi. Sigurbjörg Sigurpálsdóttir er Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi eða einelti í sínu íþrótta- og æskulýðsstarfi eða eru ekki vissir og vilja fá ráðgjöf varðandi slík mál, geta haft samband við Sigurbjörgu með því að senda póst á samskiptaradgjafi@samskiptaradgjafi.is eða hringt í síma 8399100.

Engin greiðsla er tekin fyrir þjónustu samskiptaráðgjafa.

Viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum

Viðbragðsáætlun ÍSÍ tekur til allra iðkenda og starfsmanna/sjálfboðaliða innan íþróttarinnar.

Iðkendur eru allir þeir sem stunda íþróttina innan starfs hestamannafélaganna og þar með undir hatti LH og ÍSÍ.

Starfsmaður nær yfir alla þá sem koma að starfi hreyfingarinnar, þjálfarar, kennarar, stjórnarmenn, sjálfboðaliðar, starfsmenn félaganna, starfsmenn reiðhalla og íþróttamannvirkja og foreldra iðkenda og fleira.

Yfirmenn félaga og starfsmenn geta gegnt mikilvægu stuðningshlutverki ef samstarfsmaður verður fyrir áfalli. Ennfremur getur stuðningur starfsmanna félaganna og sambandsins við börn sem lenda í áfalli haft mikið að segja fyrir viðkomandi. Aðstæður geta orðið þannig að utanaðkomandi aðstoð sé nauðsynleg, og því er afar mikilvægt að starfsmenn haldi og virði þagnarheit og trúnað sinn við þá sem lenda í áfalli.

Hvernig bregst ég við?

Allir iðkendur skulu hafa eftirfarandi í huga, hvort sem viðkomandi er iðkandi/keppandi, þjálfari, stjórnarmeðlimur, dómari, aðstandandi, áhorfandi eða annað:

  • Ef ég sé eitthvað sem mér finnst skrýtið eða ekki eðlilegt þá læt ég vita að því
  • Ef heyri um eitthvað sem mér finnst skrýtið eða ekki eðlilegt þá læt ég vita að því
  • Ef ég tek eftir breytingum í hegðun iðkanda/keppanda þá læt ég vita að því
  • Ef ég veit af einhverjum sem ekki ætti að koma að þjálfun eða annari vinnu með íþróttafólki læt ég vita að því.

Það er eðlilegt að spyrja hvert eigi að snúa sér með ofangreint, og þess vegna er gott að hafa eftirfarandi viðmið í huga:

  • Ef um augljóst lögbrot er að ræða ber að hringja á lögreglu í síma 112
  • Ef um er að ræða barn ber að tilkynna það til barnaverndar í síma 112
  • Ef um einhvern vafa er að ræða er best að hringja í 112 og fá leiðbeiningar
  • Þolendur eiga kost á að leita stuðnings og aðstoðar hjá Bjarkarhlíð-miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í síma 5533000
  • Trúnaðarráð LH tekur við tilkynningum og kemur þeim í farveg  

Barnavernd – Netnámskeið Æskulýðsvettvangsins

Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því.

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð.

Netnámskeið Æskulýðsvettvangsins í barnavernd er öllum opið og ókeypis.