U-21 árs landslið Íslands í bígerð

Landsliðshópur yngri flokka á Norðurlandamótinu síðastliðið sumar.
Landsliðshópur yngri flokka á Norðurlandamótinu síðastliðið sumar.

Nú er undirbúningsvinna fyrir komandi tímabil hjá U-21 árs landsliðshópnum komin á fullan skrið.  

Á næsta ári er stóra verkefni landsliðsins HM íslenska hestsins í Hollandi og þangað ætlum við með okkar allra sterkustu keppnispör frá Íslandi og einungis 5 ungmenni verða valin til keppni þar.

Með þetta stóra verkefni í huga mun áhersla Heklu Katharínu Kristinsdóttur landsliðsþjálfara á árinu 2023 vera sú að einungis sterkustu pörin (knapi og hestur) sem bjóðast hverju sinni verða í landsliðshópnum.

Einnig skal landsliðsþjálfari hafa í huga sem mesta breidd í liðinu (sterkustu fimmgangspörin, sterkustu fjórgangspörin og sterkustu pörin í skeiðgreinum). 

Fyrir liggur að landsliðþjálfari mun fækka í landsliðshópnum frá síðasta ári með ofangreint markmið í huga. Stærð fyrsta úrtaks í landsliðshóp er á bilinu 10-12 knapar.

Rétt er að taka fram að knapar sem ekki eru valdir að þessu sinni eiga jafn mikinn möguleika og allir aðrir til þess að sanna sig á undirbúningstímabilinu sem og á komandi keppnistímabili til þess að ávinna sér sæti í landsliðshópnum og mun landsliðsþjálfari fylgjast grannt með stöðu mála og bæta knöpum í hópinn eftir því sem þurfa þykir.  

Nýr landsliðshópur (fyrsta úrtak) fyrir árið 2023 verður kynntur nú í nóvember. 

Vetrarstarfið hjá hópnum fer af stað strax í desember, og er nokkuð þétt alveg fram á vor og sumar þegar endanlegur hópur fyrir HM verður kynntur. 

Þjálfun, mælingar og ýmsir hittingar eru skipulagðir yfir tímabilið, og knapar liðsins þurfa svo sannarlega að hafa fyrir sínum sætum í hópnum.  

 Það er stórt ár framundan og mikill hugur í þeim sem að landsliðsstarfinu koma í þeim verkefnum sem framundan eru.  

Áfram Ísland