Rafræn Menntaráðstefna LH í janúar 2024 með frábærum fyrirlesurum og spennandi pallborði!

Menntanefnd LH stendur fyrir rafrænni Menntaráðstefnu nú í janúar 2024, með frábærum kennurum og pallborðsfólki. Þema þessarar ráðstefnu er hið svokallaða „Social Licence to operate“ eða „félagslegt leyfi til ástundunar“ - sem fjallar um hinn aukinn þrýsting víðs vegar frá um hvort verjandi sé að brúka dýr og þar með hross eingöngu til ánægju okkar mannfólksins. Þessi umræða er orðin mjög áberandi víða um heim og við hestafólk (ekki síst erlendis en jafnvel á Íslandi einnig) finnum fyrir sívaxandi gagnrýni og þekkingarleysi um hlutverk hrossa í okkar menningu. Þar sem okkar hestar eru þar að auki fremur smáir lendum við Íslandshestafólk jafnvel enn meira í þessari gagnrýni.

Rafræna ráðstefnan núna í janúar mun fjalla um hvernig vísindin geta stutt okkur í þessari umræðu allri og sérstaklega teknar fyrir nýlegar rannsóknir sem snúa að heilbrigði og endingu hrossanna okkar og hvaða áhrif við höfum í raun á hestana og öfugt.

Ráðstefnan er hugsuð fyrir þjálfara og reiðkennara innan Menntamatrixu FEIF og dómara innan Íslandshestamennskunar, en hægt er að senda inn beiðni til LH um aðgang sé viðkomandi ekki innan þessara hópa. Þátttaka í ráðstefnunni gildir sem símenntun fyrir Menntamatrixu FEIF frá LH (endilega kannið hvort ykkar landssamtök ef önnur en LH, samþykki einnig endurmenntunargildið).


Stefnt er að fimm kvöldum í janúar 2024, (9., 11., 14, 16. og 23.janúar) og verður einn fyrirlesari í senn fyrstu fjögur kvöldin, fimmta kvöldið verður svo samantekt og pallborðsumræður með fulltrúum ýmissa geira hestamennskunnar.


Þátttakendur skrá sig í gegnum Menntanefnd LH, (nánar auglýst síðar).


Á næstu vikum munum við kynna þá kennara sem að ráðstefnunni koma, fylgist með og takið frá umrædd kvöld!

Með kærri kveðju og tilhlökkun,
Menntanefnd LH.