Mette sló í gegn á Stórsýningu Fáks

Mette hleypir Happadís á kappreiðastökki beislislausri.
Mette hleypir Happadís á kappreiðastökki beislislausri.
Ljóskur að leik komu verulega á óvart á Stórsýningu Fáks sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina. Þar sýndi Mette Mannseth listir sýnar á hryssunni Happadís frá Stangarholti. Ljóskur að leik komu verulega á óvart á Stórsýningu Fáks sem haldin var í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina. Þar sýndi Mette Mannseth listir sýnar á hryssunni Happadís frá Stangarholti.

Mette reið hryssunni beislislaust, hafði aðeins leðuról um háls hennar, og lét hana gera ýmsar æfingar. Meðal annars krossgang til beggja handa og stöðvun á punktinum fram af kappreiðastökki. Vakti það athygli hve fús hryssan var að taka á, — og slaka á! — í stuttri æfingu.

Nátthrafn frá Dallandi er ein aðal stjarnan í íslenskum gæðingum í dag. Halldór Guðjónsson, knapi hans og þjálfari, reið honum í “spot lite” í lok sýningarinnar við mikil fagnaðarlæti áhorfenda. Þá vakti athygli sýningaratriði á gæðingum hjónanna Erlu Guðnýjar Gylfadóttur og Jóns Ó. Guðmundssonar, en þau sýndu átta frábæra gæðinga sem allir eru í þeirra eigu.



Sigurður Sigurðarson vann skeiðkeppni hússins á Freyði frá Hafsteinsstöðum. Gunnar Arnarson, þulur sýningarinnar, kryddaði skeiðkeppnina með umsögnum um reiðlag knapa og skeiðsnið vekringanna. Litaði það sýningaratriðið og gerði það skemmtilegra. Af sýningum kynbótahrossa voru afvæmi Pyttlu frá Flekkudal, Ás frá Ármóti, og hryssur Finns Ingólfssonar í Vesturkoti hvað bragðmestar.

Sýningin var vel sótt, fullt hús, og skipulag með ágætum. Áhorfendur virtust skemmta sér konunglega. Það er þó töluvert í land að hún nái hæðum “gömlu góðu” sýninganna frá fyrstu árum Reiðhallarinnar, þar sem frumleiki og metnaður var í hæstu hæðum. En prýðileg sýning eigi að síður og aðstandendum hennar til sóma.