Úthlutun stórmóta 2023

Hestamannafélögin Sleipnir, Geysir og Sprettur halda stórmótin á vegum LH árið 2023.
Hestamannafélögin Sleipnir, Geysir og Sprettur halda stórmótin á vegum LH árið 2023.

Á dögunum var úthlutun á stóru mótum Landssambandsins gerð klár fyrir keppnisárið 2023.

Þau mót sem á vegum LH voru laus til umsóknar eru Íslandsmót ungmenna og fullorðinna, Íslandsmót barna og unglinga og Áhugamannamót Íslands.

Umsóknir bárust frá félögum um öll mótin þrjú, og kann Landssambandið þeim félögum bestu þakkir fyrir sýndan áhuga á því að taka að sér að halda þau.

Árið 2023 verður að líkindum stórt og viðburðaríkt ár í hestaíþróttunum, og það er ljóst að Íslandsmótin eru mikilvægustu mót ársins á Íslandi í ljósi þess að HM íslenska hestsins er framundan í Hollandi á komandi sumri.

Mótshaldarar eru því í sannkölluðu dauðafæri að gera þessi mót stórskemmtileg áhorfs og það verður spennandi að fylgjast með framvindunni í sumar þar sem landsliðin okkar eru að taka á sig mynd fyrir komandi átök.

Á liðnu landsþingi fyrr í haust var Áhugamannamót Íslands samþykkt undir væng Landssambandsins og kemur því inn á borð sambandsins sem eitt af stóru mótum þess í fyrsta sinn.

Það er ákveðin lyftistöng og viðurkenning á stærð þessa móts og verður gaman að þróa það áfram.

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 29. júní-2. júlí verður haldið af Hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi.
Hestamannafélagið Sleipnir hefur á undanförnum árum sannað sig rækilega í mótahaldi á Íslandi með WR móti sínu sem er orðið eitt af stóru viðburðum hestaíþróttanna ár hvert. Aðstaða til mótahalds á Selfossi er til fyrirmyndar og einvala teymi reyndra mótshaldara mun sjá um framkvæmd mótsins.

Íslandsmót barna og unglinga 13.-16. júlí verður haldið á Rangárbökkum við Hellu af Hestamannafélaginu Geysi.
Geysismenn eru margreyndir mótshaldarar, og skemmst er að minnast frábærrar framkvæmdar Landsmóts 2022 og Íslandsmót sama ár. Það er því óhætt að búast við góðu móti við bestu mögulegu aðstæður fyrir Íslandsmót yngri flokka 2023.

Áhugamannamót Íslands 21.-23. júlí verður haldið af Hestamannafélaginu Spretti í Kópavogi.
Sprettur hefur í mörg ár haldið utan um áhugamannadeildina í hestaíþróttum með myndarbrag, og þar með skipað sér stóran sess í mótahaldinu fyrir áhugamenn í hestaíþróttum. Það er því passandi að Sprettur ríði á vaðið með því að halda Áhugamannamót Íslands 2023.

Landssamband Hestamannafélaga óskar þessum Hestamannafélögum til hamingju með úthlutun mótanna þriggja, og það von og trú sambandsins að mótin verði öll hin glæsilegustu.