Tilkynning til mótshaldara, knapa, aðstandenda knapa og dómara

Um liðna helgi kom upp atvik á WR móti að mótshaldarar fengu ábendingu um að knapa, sem var að keppa, væri stjórnað af þjálfara sem staðsettur var utan vallar með góða yfirsýn yfir völlinn.

Um liðna helgi kom upp atvik á WR móti að mótshaldarar fengu ábendingu um að knapa, sem var að keppa, væri stjórnað af þjálfara sem staðsettur var utan vallar með góða yfirsýn yfir völlinn. Nútímatækni gerir það mögulegt að knapinn var í ,,Bluetooth” sambandi við þjálfarann. Hann var með lítinn hnapp í eyranu sem sést ekki vegna hárs eða óla á hjálminum. Þegar yfirdómari og mótshaldari ræddu við þjálfara knapans hélt hann að þetta væri löglegt þar sem þetta væri mikið notað í kynbótasýningum, gæðingakeppnum og væri algengt í íþróttakeppnum. En eins og vonandi allir vita þá er þetta stranglega bannað í keppni samkvæmt  Lög og reglum LH, sjá eftirfarandi:

8.2.1
Knapi skal sjálfur undirbúa og ríða hesti sínum fyrir keppni. Enginn annar en hestur og knapi hans, keppnispar má vera í upphitunarhring á meðan á keppni stendur. Undanskilið þessari reglu er aðstoð við að hagræða fötum og öðrum útbúnaði áður en riðið er inn á völlinn. Knapinn má ekki fá neins konar utanaðkomandi hjálp á meðan á keppni stendur.


Eins viljum við benda á eftirfarandi greinar í Lög og reglum LH undir kaflanum Siðareglur:

2.3.1.  Ábyrgð keppenda, leiðbeinenda og þjálfara
Keppendur sjálfir bera mjög mikla ábyrgð við að kynna og standa vörð um sanngjarna keppni í sinni íþrótt. Þrátt fyrir ábyrgð annarra þá er er það keppandinn sem fyrst og síðast getur á beinan hátt haft mest áhrif á það hvort keppni er sanngjörn eður ei með því að hafa skilning á þeim reglum sem varða keppni og að fara af trúverðuleika eftir þeim, hvort sem einhver sér til eður ei.

Þekktir keppendur verða að átta sig á hversu mikil áhrif þeirra fordæmi getur haft og viðurkenna ábyrgð sína sem fyrirmyndir. Þetta á við um gjörðir þeirra á hestinum sem og þegar hann er ekki á hestbaki, á upphitunarsvæði sem og á keppnisvellinum.

Leiðbeinendur og þjálfarar geta einnig haft áhrif á ímynd sanngjarnrar keppni og sett gott fordæmi með því að draga úr hugsanlegum virðingarskorti skjólstæðinga sinna fyrir reglunum og gert athugasemdir við hugsanlegar óviðeigandi gjörðir skjólstæðinga sinna. Leiðbeinendur hafa jafnmikil áhrif með fordæmi sínu og þeir hafa með tilsögn sinni.

2.3.3 Ábyrgð dómara, starfsmanna, dýralækna og allra annarra embættis- manna
Starfsmenn hafa mikið vald sem um leið leggur á herðar þeirra mikla ábyrgð. Hver sem einstök störf þeirra eru, þá eru þau ekki einungis metin eftir tæknilegri hæfni eða nákvæmri þekkingu á lögum og reglum, heldur einnig eftir dómgreind, sjálfsstjórn, sveigjanleika, sanngirni og heiðarleika. Að auki skulu allir starfsmenn gæta fyllsta hlutleysis og vera á verði gagnvart hlutdrægni í hvaða mynd sem vera skal. Í öllum vafatilfellum er ávallt skynsamlegra fyrir starfsmann að leita upplýsinga hjá þeim sem hugsanlega eiga í hlut heldur en að fylgja eftir hugsanlegum en órökstuddum grun.

2.3.5. Ábyrgð áhorfenda
Starfsmenn hafa mikið vald sem um leið leggur á herðar þeirra mikla ábyrgð. Hver sem einstök störf þeirra eru, þá eru þau ekki einungis metin eftir tæknilegri hæfni eða nákvæmri þekkingu á lögum og reglum, heldur einnig eftir dómgreind, sjálfsstjórn, sveigjanleika, sanngirni og heiðarleika. Að auki skulu allir starfsmenn gæta fyllsta hlutleysis og vera á verði gagnvart hlutdrægni í hvaða mynd sem vera skal. Í öllum vafatilfellum er ávallt skynsamlegra fyrir starfsmann að leita upplýsinga hjá þeim sem hugsanlega eiga í hlut heldur en að fylgja eftir hugsanlegum en órökstuddum grun.


2.7.4 Dæmt úr keppni og agaviðmið
2.7.4.3 Viðurlög

Eftirtalin viðurlög má nota ein sér eða einhver saman, séu reglur FIPO brotnar:

  • Útilokun frá keppnisgrein
  • Viðvörun sem ekki er gerð opinber
  • Viðvörun sem gerð er opinber
  • Útilokun frá móti
  • Keppnisbann
  • Útilokun frá móti og keppnisbanni skal ávallt beita ásamt opinberri viðvörun.





Virðingafyllst,

Stjórn og fræðslunefnd HÍDÍ