Stóðhestavelta landsliðsins - fyrstu 10 hestarnir

Stóðhestavelta landsliðsins verður á sínum stað í tengslum við Allra sterkustu sem haldið verður í Samskipahöllinni í Spretti laugardagskvöldið 1. maí nk. Um 100 folatollar verða í pottinum sem stóðhestaeigendur hafa gefið til styrktar landsliðinu. LH þakkar stuðninginn.

Miðsala hefst kl. 12.00 föstudaginn 30. apríl í vefverslun LH og er miðaverð 45.000 kr. einn tollur er á hverjum seldum miða.

Við kynnum fyrstu 10 stóðhestana til leiks:

Organisti frá Horni 8,72 
Organisti var efstur í flokki 6 vetra stóðhesta á Landsmótinu á Hólum 2016. Hann hlaut 8,74 í einkunn í A-flokki á gæðingamóti Fáks árið 2018. Organisti á 162 skráð afkvæmi, sex afkvæmi hafa hlotið fullnaðardóm og eru þau öll með fyrstu verðlaun.  Myndband af Organista í Worldfeng.

Álfgrímur frá Syðri-Gegnishólum 8,47
Álfgrímur hefur hlotið í kynbótadómi 9,5 fyrir vilja og geðslag og fet og 9,0 fyrir tölt, brokk, fegurð í reið og hægt tölt.  Myndband af Álfgrími af WorldFeng.

Bósi frá Húsavík 8,54
Bósi er hæst dæmdi vindótti stóðhestur heims. Hann hefur átt farsælan keppnisferil í flokki ungmenna í fimmgangi, gæðingaskeiði og slaktaumatölti.  Myndband af Bósa í Worldfeng.

Dagfari frá Álfhólum 8,62 
Dagfari hefur m.a.  hlotið í kynbótadómi 9,5 fyrir brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið og  9,0 fyrir tölt og stökk. Myndband af Dagfara af Worldfeng.

Eldur frá Torfunesi 8,60 
Eldur hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi á landsmóti 2018. Hann var annar í flokki 4ra vetra hesta á landsmóti 2011 og þriðji í flokki 5 vetra hesta á landsmóti 2012. Hann hefur einnig átt farsælan keppnisferil í gæðingakeppni. Myndband af Eldi í Worldfeng.

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum 8,94
Álfaklettur sigraði fimmgang í Meistaradeildinni 2021 og var í 2.-3. sæti í gæðingafimi. Í kynbótadómi hefur hann hlotið 9,5 fyrir skeið og samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, brokk, stökk og fegurð í reið. Hann stóð efstur á landssýningu 2020 í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri. Myndband af Álfakletti af WorldFeng.

Vákur frá Vatnsenda 8,36 
Vákur sigraði fjórgang á Reykjavíkurmeistaramóti 2020 og var í þriðja sæti á Íslandsmóti í fjórgangi 2019.  Hann hefur hlotið í kynbótadómi 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9,0 fyrir tölt, hægt tölt, brokk, hægt stökk, fet og fegurð í reið. Myndband af Vák á WorldFeng.

Sær frá Bakkakoti 8,62 
Sær hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2008. Hann á fjölmörg hátt dæmd afkvæmi, hæst þeirra er Arion frá Eystra-Fróðholti.  Myndband af Sæ á WorldFeng.

Hersir frá Húsavík 8,31
Hersir fór í dóm 2020 og fékk 8,57 fyrir byggingu; stór og bolléttur hestur, með góða fótagerð og hófa, langan og reistan háls og háar herðar. Í hæfileikaeinkunn fékk hann 8.17 (án skeiðs 8.75); hann fékk 5x9, 2x8,5 og eina áttu. Það sem einkenndi umsagnir var mikill fótaburður, takthreint tölt og svifmikið brokk og stökk. Hersir er einstaklega þjáll og glæsilegur í reið. Myndband af Hersi. 

Vökull frá Efri-Brú 8,37
Vökull hefur átt farsælan keppnisferil og hefur hlotið í kynbótadómi m.a. 9,5 fyrir fegurð í reið og 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag, hægt stökk og samræmi.  Myndband af Vökli af Worldfeng.