Sóttvarnarreglur 10. desember

Sóttvarnarreglur heilbrigðisráðherra sem taka gildi fimmtudaginn 10. desember leyfa einstaklingsbundnar æfingar afreksíþróttafólks. Það þýðir að keppendur á efsta stigi, meistaraflokksknapar, hafa heimild til að þjálfa í reiðhöllum. Sem fyrr er skipulagt barna- og unglingastarf í íþróttum einnig heimilt. Hvert hestamannafélag ber ábyrgð á og stýrir umferð um sína reiðhöll og eru knapar á meistaraflokksstigi sem vilja fá aðgang að reiðhöllum beðnir um að hafa samband við sitt félag.

Íþróttahreyfingin hefur verið að vinna að litakóðakerfi fyrir íþróttir og voru bundnar vonir við að slíkt kerfi yrði kynnt með nýrri reglugerð 10. desember. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Í litakóðakerfinu eru íþróttagreinar flokkaðar með tilliti til áhættu við iðkunina og út frá því ræðst til hversu umfangsmikilla ráðstafana þarf að grípa. Hestaíþróttir eru í flokki lágáhættuíþrótta eins og aðrar snertilausar íþróttir í litakóðakerfinu.

LH hefur sent inn beiðni til heilbrigðisráðuneytisins um að fá reiðhallir opnaðar fyrir almennri notkun og mun halda áfram að vinna í því máli.