Samantekt á breytingum á keppnisreglum sem taka gildi 2015

 

Á Íslandi, tekur gildi nú þegar:

  1. Eins og kunnugt er má hestur einungis keppa í gæðingakeppni fyrir eitt félag á ári hverju.  Í nýrri reglu eru tímamörkin skerpt og í grein 7.3.1. tekið fram „ að hestur skuli vera í eigu félagsmannns í síðasta lagi þann dag sem skráningu lýkur á umrætt mót.  Þetta gildir einnig um barna-, unglinga- og ungmennaflokka“
  2. Þrengd er heimild þeirra sem taka þátt í léttari greinum, T7 og V5 til að taka þátt í öðrum keppnisgreinum á sama móti.  Þetta er hugsað til að T7 og V5 þjóni sínum tilgangi fyrir minna vana knapa en fyllist ekki af vönum knöpum á nýjum hestum.  (ÍSLENSK SÉRREGLA)
  3. Þingið samþykkti að á hverju móti geti knapar einungis keppt annað hvort í 1, 2  EÐA meistaraflokki, þ.e. einungis einum flokki á hverju móti. 
  4. Til viðbótar þeim hestum sem vinna sér þátttökurétt á Landsmóti í A og B flokki í gegnum úrtökur hestamannafélaganna fá efstu 6 hestar á stöðulistum, sem ekki komust inn í gegnum úrtökur, þátttökurétt á Landsmóti.  Við lok skráningarfrests á Landsmót skal keppnisnefnd fara yfir skráningar og stöðulista og tilkynna þeim sem í hlut eiga um þátttökurétt. 
  5. Komi keppandi í yngri flokkum fleiri en einum hesti inn Landsmót skal hann velja hvaða hest hann fer með, fyrir lok skráningarfrests á Landsmót, óháð því, hvaða hesti hann ríður í úrslitum.  Enda úrslitin í raun ný keppni, óháð Landsmóti. 
  6. Í úrslitum T1 (ath ekki T3) skal gefa hestum 1 mínútu hlé þegar skipt er um hönd í hraðabreytingum og 2 mínútu hlé þegar skipt er um hönd á yfirferð. Þulur skal tilkynna þetta og biðja knapa að láta hesta sína feta rólega á meðan á þessum hléum stendur.  (Þessi grein tekur gildi hjá okkur í sumar og til prufu alþjóðlega í sumar og fer til samþykktar fyrir FEIF þingið 2016, sjá hér að neðan.  Þetta var samþykkt samhljóða í Sportnefnd á þinginu 2015)
  7. Viðurlög við að tilkynna sig ekki eða tilkynna of seint að knap mæti ekki í úrslit eru hert.  Og hljóða svo: Á mótum þar sem ekki keppa lið er gengið út frá því að knapi og hestur séu heilbrigðir og tilbúnir til þátttöku nema annað sé tilkynnt sérstaklega, að minnsta kosti einni klukkustund áður en fyrstu úrslit í viðkomandi grein hefjast.  Eftir þau tímamörk er einungis unnt að draga sig til baka úr úrslitum liggi fyrir staðfesting dýralæknis eða læknis á veikindum eða helti hestsins eða knapa þegar við á.  Að öðrum kosti er strikast allur árangur knapans út á mótinu og knapinn er dæmdur í tveggja vikna keppnisbann er hefst mánudag eftir að móti lýkur.  (Þessi grein tekur gildi hjá okkur í sumar og fer til samþykktar fyrir FEIF þingið 2016, sjá hér að neðan.  Þetta var samþykkt samhljóða í Sportnefnd á þinginu 2015)
  8. Í 100 metra skeiði skal þulur lesa tíma upp jafnóðum.  Þulur skal tilkynna að tímar verði ekki staðfestir fyrr en keppni lýkur og starfsfólk tímatöku hefur farið yfir þá staðfest að þeir séu réttir.  Þessi yfirferð skal fara fram strax að loknu skeiðinu. 
  9. Skáreim er leyfð með stöngum og vogaraflsbeislum.  ATH þó að á Worldranking mótum er hún ekki leyfð. 
  10. Að gefnu tilefni skal ítrekað hvernig notkun á atkvæðum knapa um á hvora hönd skal riðið, skuli háttað.  Í úrslitum skulu greidd atkvæði um það á hvort hönd er riðið.  Falli atkvæði jöfn (þ.e. þegar 6 eða 8 knapar eru í úrslitum) gildi atkvæði efsta knapa úr forkeppni tvöfalt.  Sé oddatala í úrslitum, tekur þessi tvöföldun atkvæðis ekki gildi, þar sem atkvæði þar geta ekki fallið jafnt.  Eitthvað hefur borið á misskilining við túlkun á þessari reglu og vonum við að þetta skýri hana. 
  11. Minnt er á að forritið FIPO timer skuli notað alltaf í keppni hér á landi.  Það er fáanlegt á bæði Ipad og Iphone og er auðvelt í notkun fyrir þuli og stjórnendur keppni og passar upp á að allir fái réttlátan tíma til að sýna sína hesta. 

Samþykkt á FEIF þingi 2015, tekur gildi nú þegar:

  1. Varðar HM:  Fjöldi knapa á HM hefur aukist.  Þetta leiðir til þess að breyta þarf skráningarfresti í greinar þar sem þörf er á meiri tíma til undirbúningi, bæði fyrir liðin og starfsfólk mótsins.  Eitt að nauðsynlegum skrefum í þessa átt er að gefa liðsstjórum meiri tíma til að útbúa skráningarform og að ákveða hvaða greinar knapar fara í og er tími liðsstjóra til þessa lengdur úr einni í tvær klukkustundir, eftir að dýralæknisskoðun lýkur. 
    1. Heilbrigðisskoðun „fit to compete 2 check“  - skoðun á kynbótahrossum fer fram á laugardegi, sporthrossa á sunnudegi
    2. Lokaskráning liða skal fara fram 2 klukkustundum eftir að heilbrigðisskoðun lýkur.
    3. Yfirlit yfir skráningar liðanna eru afhentar liðssjórum hvers liðs á mánudagsmorgni kl 8.  Liðsstjórar geta gert leiðréttingar til kl 9.
    4. Keppnisröð er dregin kl 9, eftir leiðréttingarfrestur er liðinn.  Þeir sem málið varðar, mega vera viðstaddir. 
    5. Rásröð forkeppni er gefin út á mánudegi kl 12. 
    6. Varðar HM: Nú mega yngri knapar verja Heimsmeistaratitil sinn, að því gefnu að þeir séu ennþá ungmenni á næsta móti.
    7. Varðar HM: Rásröð er nú algerlega tilviljanakennd, þ.e. heimsmeistarar eru ekki lengur síðastir í rásröð. 
    8. Breyting í keppnisgreininni V3 (sem er lítið notuð hér á landi).  Fyrsta atriði breytist úr: hægt til milliferðar tölt í hægt tölt. 
    9. Samþykkt á sportfundi, tekur gildi nú þegar; allar íslenskar stangir með vogarafli og keðju og tunguboga, þar sem bilið frá neðri brún að boga er meiri en 0,5cm eru bannaðar.  Ath, ekki eru bannaðar svokallaðar dressur stangir eða pelham alþjóðlega, allavega ekki enn sem komið er. 
    10. „Blóðreglan“ kemur nú formlega inn í lög og reglur, var áður einungis í dómaraleiðara. 

Hún hljómar svo í grein: 2.2.2.7:  Þar sem velferð hrossins er ávallt í fyrirrúmi skal farið að eftirfarandi reglu:  Um leið og dómari sér/gerir sér grein fyrir því að það blæðir úr hrossinu (e: active bleeding) á meðan á keppni stendur skal dómari þá þegar gefa rautt spjald (ekki dýralæknisspjald) og vísa hrossinu frá keppni.

  1. Varðar kynbótasýningar: Öll beisli með vogarafli og keðju og tunguboga eru nú bönnuð.  Og skáreim er bönnuð með vogaraflslbeislum. 
  2. Varðar kynbótasýningar: Hófalengd er stytt um 0,5cm í öllum stærðarflokkum.  Þ.e. hóflengd skal vera 8.5 cm.  Ef hross eru 137-144cm á herðakamb má hófurinn vera 9 cm.  Og sé hrossið 145cm eða stærra má hófurinn vera 9.5cm.
  3. Varðar kynbótasýningar: Settar voru reglur um fósturvísaflutninga. 
    1. Fóstran skal vera hreintæktuð íslensk, skráð í Worldfeng og vera DNA greind
    2. Ætterni forelda bæði fóstru og móður skal vera staðfest með DNA greiningu.
    3. Folald sem verður til með fósturvísaflutningi skal vera DNA greint.
    4. Eftirfarandi takmörk á fjölda afkomenda hryssna á ári eru sett:

                                                               i.      Að hámarki 2 folöld með fósturvísaflutningi á hverju ári

                                                             ii.      Eitt folald (2 ef þau eru tvíburar) borið og kastað með náttúrulegum hætti.

                                                            iii.      Þar af leiðir, að hámarki 3(eða fjögur séu tvíburar) á ári.

  1. Fósturvísafolöld skulu vera auðkennd í Worldfeng.
  2. Klónuð hross eða afkvæmi þeirra eru ekki leyfð í Worldfeng
  3. Genatilraunir eru ekki leyfðar í Worldfeng (E: Gene manipulation)

Eftirfarandi atriði voru samþykkt á Sportfundi FEIF. ATH, tekur ekki gildi núna heldur fer fyrir þing 2016 til samþykktar, einungis hér til upplýsinga.

  1. Samþykkt var að stytta hófa um 0,5 cm í öllum stæarðarflokkum, á sama hátt og þegar hefur tekið gildi í kynbótasýningum.
  2. Hert viðurlög fyrir að mæta ekki í úrslit, sbr breytingu á Íslandi, sjá hér að ofan
  3. Samþykkt að dæma knapa úr leik, mæti þeir ekki í fótaskoðun að lokinni keppni.  Allur árangur knapa á mótinu fellur þá niður.
  4. Samþykkt að dæma hesta úr leik, sé ekki mögulegt að heilbriðgisskoða eða fótaskoða þá eftir keppni.  Að því gefnu að fullreynt eftir venjulegum leiðum að hægt sé að skoða hrossið.
  5. Í Evrópu virðist vera vandamál á köflum að tímatökubúnaður virki ekki sem skyldi.  Því sóttu þeir það fast að fá skýrt í FIPO hvernig skuli taka á því.  Það þykir ekki hestvænt að láta hrossin hlaupa marga sprettir til að freista þess að ná tíma á rafrænni tímatöku. Þannig að samþykkt er að það sé heimilt að taka handvirkt tíma meðfram rafrænni tímatöku, eða vera með vara-rafrænan tímatökubúnað og ef aðal rafræni tímatökubúnaðurinn bilar, sé heimilt að skipta yfir í handvirka tímatöku.  Athugað sé að bætt er 0.4 sek við handtímann, áður en tímar eru gefnir út.  Þeir tímar gilda þó ekki til heimsmets.    TEKUR GILDI 2015
  6. Hnykkt er á því, að fenginni reynslu,  að Sportfulltrúi FEIF, Doug Smith núna, fái heimild til að taka út velli þá sem nota skal á HM ásamt upphitunarsvæði og verði að samþykkja þá, áður en mót hefst.
  7. Rætt var um lágmarksbreidd hringvalla fyrir HM og samþykkt að þeir verði að vera amk 4 metrar
  8. Fellt var að taka upp skáreimina aftur.
  9. Samþykkt var að taka upp hlé í 1 mínúta á milli atriða þegar skipt eru um hönd í hraðabreytingum í T1 og í 2 mínútur þegar skipt er um hönd á yfirferð.  Þessi tillaga var samþykkt hjá okkur í haust og það var samþykkt hjá FEIF að nota þetta til reynslu í sumar, 2015 og svo fer þetta fyrir þingið 2016 til endanlegrar staðfestingar.    Búið er að setja þetta inn í „fipo Timer“ sem er app á Ipad  og Iphone til notkunar fyrir þuli á mótum. 
  10. Samþykkt var að víkka heimild hesta til að taka þátt í ýmsum greinum, með þeim rökum að erlendis eru stundum fleiri en einn í sömu fjölskyldunni að keppa á sama hestinum í svipuðum greinum.  Með þeim rökum að upphaflega hefði þessi hamlandi grein verið sett með HM í huga. 
  11. Samþykkt var að sekta þjóðir sem skila inn úrslitum úr WR mótum of seint um 160€ per mót sem kemur of seint.
  12. Rætt var að skýra þurfi vel hvað er alþjóðlegt mót og hvað ekki.  Að þar sé liðakeppni og að knapar athugi að taki þeir þátt þar, verði þeir að athuga með þjóðerni til að lenda ekki í vandræðum á næsta HM.  Alþjóðleg mót eru núna HM, Norðurlandamót og svo Miðevrópumót, MEM. 
  13. Ýmislegt fleira var rætt en ekki neitt sem breytir reglum eða mun breyta þeim á næstunni.

Nánari upplýsingar af FEIF ráðstefnunni má sjá á heimasíðu FEIF, www.feif.org.  Fundargerð fundarins verður komin ca um næstu mánaðarmót þar inn.

Með kveðju fyrir hönd keppnisnefndar

Hulda Gústafsdóttir, Sportfulltrúi Íslands