Nýr starfsmaður á skrifstofu LH

Hinrik Þór Sigurðsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri afreks- og mótamála á skrifstofu LH. Hinrik mun stýra greiningarvinnu er varðar skipulag mótahalds og keppni í hestaíþróttum og skipulagningu afreksmála LH. 

Hinni kemur úr Hafnarfirði og er félagi í Hestamannafélaginu Sörla þar sem fjölskyldan stundar sína hestamennsku. Hann hefur starfað sem yfirþjálfari Sörla í nokkur ár og var umsjónarmaður Reiðmannsins hjá Landbúnaðarháskóla Íslands frá árinu 2016-2021. Hinni er menntaður reiðkennari og þjálfari frá Hólaskóla og hefur starfað við reiðkennslu og námskeiðahald um allan heim síðasliðin 20 ár ásamt því að vinna með fyrirlestra og fræðslu á sviði hugarþjálfunar fyrir íþróttafólk í ýmsum greinum. "Ég er svakalega spenntur fyrir því að taka við þessu starfi, og finnst mikill heiður að fá að starfa í Laugardalnum innan um íþróttahreyfinguna og vinna að framgangi okkar íþróttar, og geta í samstarfi við gott fólk úti í greininni haft áhrif á umhverfi afreks- og mótamála í hestamennskunni.”

Hinrik hóf störf þann 2. ágúst og er hann boðinn velkominn til starfa.

Aðrir starfsmenn skrifstofu LH eru Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri og Aníta Aradóttir verkefnastjóri.

Þær breytingar hafa einnig orðið á starfsmannahaldi LH að Hjörný Snorradóttir hefur látið af störfum og Ísólfur Líndal Þórisson hefur látið tímabundið af störfum sem aðstoðarlandsliðsþjálfari af persónulegum ástæðum.