Nú byrjar ballið á Norðurlandamóti

Norðurlandamótið í hestaíþróttum er formlega hafið. Í morgun var setning mótsins í blíðskaparveðri sem reyndar er spáð út alla vikuna á Álandseyjunum.

Tímamismunur á milli Íslands og Álandseyja eru 3 tímar, svo dagurinn er tekinn snemma þar úti og dagskráin hófst klukkan 9:00 að staðartíma með setningu mótsins.

Það var greinilega hugur í okkar fólki og létt yfir liðinu í morgun, og það verður strax nóg um að vera hjá íslenska liðinu í dag þegar keppni hefst.

Fyrsta grein í morgun var Tölt T1 í unglingaflokki og þar áttum við einn fulltrúa. Hún Embla Lind Ragnarsdóttir endaði í 4. Sæti eftir forkeppni á honum Smið från Slättere.

T1 í ungmennaflokki er einnig lokið og þar voru Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir á Heiði från Boänge, Glódís Rún Sigurðardóttir á Glaumi frá Geirmundarstöðum, Hákon Dan Ólafsson á Viktori frá Reykjavík og Matthías Sigurðsson á Roða frá Garði fulltrúar okkar.

Matthías gerði sér lítið fyrir og reið sig beint í A-úrslit, og þær Harpa Dögg og Glódís Rún eru í B-úrslitum. 

Framundan er svo T2, slaktaumatölt ungmenna þar sem Kristófer Darri Sigurðsson ríður á vaðið sem fyrsti knapi í braut á Val frá Heggsstöðum.

Ásamt honum eru svo Selma Leifsdóttir og Fjalar frá Selfossi eru númer 3 í braut, Hulda María Sveinbjörnsdóttir og Hetja frá Árbæ eru númer 6 í braut, Védís Huld Sigurðardóttir og Stimpill frá Varmadal eru númer 9 í braut, Eva Kærnested og Garri frá Fitjum númer 11 og Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal númer 12.

Klukkan 11:30 að íslenskum tíma hefst keppni í fimmgangi fullorðinna F1 þar sem Sigurður Vignir Matthíasson verður í eldlínunni fyrir okkar hönd. Hann ríður inn númer 10 í braut, sem eini fulltrúi íslenska liðsins í þeirri grein ásamt nokkrum brottfluttum Íslendingum.

Lokagrein dagsins er svo fimmgangur ungmenna sem áætlað er að hefjist klukkan 13:00 að íslenskum tíma eða 16:00 að staðartíma.

Þar eru okkar fulltrúar þær Hulda María, Glódís Rún og Hekla Rán.

Við fylgjumst spennt með og birtum fréttir af gangi mála yfir mótið.

Hægt er að kaupa aðgang að streymi frá mótinu á https://www.ncicelandichorse.com/livestream/

Áfram Ísland