Lárus Ástmar Hannesson hlaut gullmerki LH

Lárus Ástmar Hannesson fyrrverandi formaður LH var sæmdur gullmerki á formannafundi LH 2021.

Lárus er fæddur í Stykkishólmi árið 1966.  Hann fór á unga aldri að stunda hestamennsku af miklum krafti ásamt mörgum öðrum ungum knöpum sem voru í hestamennsku í Stykkishólmi á þessum árum. Eftir nám á Hólum í Hjaltadal starfaði hann á tímabili sem atvinnumaður í hestamennsku bæði hérlendis og í þýskalandi. Lárus hefur verið virkur í keppni og ræktun í áratugi. 

Hann fór ungur að árum að láta sig félagskerfi hestamanna varða og taka virkan þátt í félagsmálum tengdum hestamennsku. Hann var formaður Hesteigendafélags Stykkishólms í fjögur ár og einnig formaður Hestamannafélagsins Snæfellings í fjögur ár.  Hann hefur verið mjög virkur í æskulýðsnefnd Snæfellings um árabil og var frumkvöðull í að koma á vinasambandi milli æskulýðsnefndar félags í Þýskalandi og æskulýðsnefndar Snæfellings.  Ungmenni frá þýskalandi hafa komið í heimsókn til ungra knapa í Snæfellingi og öfugt. 

Lárus hefur um árabil starfað ötullega í Gæðingadómarafélagi LH og var formaður þess félags um tíma.  Hann hefur einnig starfað í fræðslunefnd GDLH og formaður nefndarinnar um tíma og gegnt ábyrgðarstöðu í dómstörfum á mörgum landsmótum. 

Lárus Ástmar var kjörinn formaður Landssambands hestamannafélaga haustið 2014 og var formaður LH í sex ár eða til ársins 2020.  Hann var einnig formaður stjórnar Landsmóts ehf. á sama tímabili.

Stjórn Landssamband hestamannafélaga þakkar Lárusi óeigingjant starf í þágu hestamanna og veitir honum Gullmerki LH.