Hörður hlaut Æskulýðsbikarinn

Frá vinstri: Haraldur Þórarinsson form. LH, Helga B. Helgadóttir form. Æsk. LH, Arnar Jónsson Aspar …
Frá vinstri: Haraldur Þórarinsson form. LH, Helga B. Helgadóttir form. Æsk. LH, Arnar Jónsson Aspar og Guðjón Magnússon Herði.
Formannafundur LH stendur nú sem hæst hér í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum. Formannafundur LH stendur nú sem hæst hér í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum.
Haraldur Þórarinsson formaður LH setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Síðan bauð hann Jóni Alberti Sigurbjörnssyni fundarstjóra að taka stjórnina í sínar hendur.

Haraldur fór yfir skýrslu stjórnar og það mikla starf sem unnið er innan Landssambands hestamannafélaga. Skýrslur nefnda LH lágu fyrir sem fundargögn og skýrði Haraldur frá þeirra helstu störfum og málefnum. Næst var komið að Sigrúnu Kristínu Þórðardóttur úr hestamannafélaginu Þyt að kynna reikninga sambandsins 2010 sem og 8 mánaða uppgjör 2011. Nokkrar fyrirspurnir komu um skýrslu og reikninga, sem og einstaka mál nefnda.

Helga Björg Helgadóttir úr æskulýðsnefnd LH talaði um mikilvægi æskulýðsstarfsins innan félaga okkar. Það er jú hornsteinninn í hestamennskunni og forsenda fyrir nýliðun og viðhaldi hennar. Samkvæmt æskulýðsskýrslum einstakra félaga má sjá að starfið er mikið og fjölbreytt og gaman að sjá nýja þætti fléttast saman við þá hefðbundnu. Í ár var Æskulýðsbikar LH veittur hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ. Starf þeirra var með miklum sóma, nýbreytni í bland við gamla og góða viðburði. Það var Arnar Jónsson Aspar fulltrúi æskulýðsnefndar Harðar ásamt Guðjóni Magnússyni formanni félagsins sem veittu bikarnum viðtöku og hlutu mikið klapp fyrir sitt góða starf.

Fundurinn heldur áfram fram eftir degi með skýrslu Haralds Arnar Gunnarssonar framkvæmdastjóra Landsmóts um landsmótin 2011 og 2012, síðan mun landsmótsnefnd kynna sína skýrslu og vinnu og þar á eftir fara í gang vinnuhópar um þau málefni.

Áður en komið verður að liðnum "önnur mál" verður kynnt skýrslan "Íslenski hesturinn".

Fylgist með fréttum af fundinum!