Sleipnir hlýtur æskulýðsbikarinn 2021

Linda Björvinsdóttir formaður æskulýðsnefndar Sleipnis og Guðni Halldórsson formaður LH.
Linda Björvinsdóttir formaður æskulýðsnefndar Sleipnis og Guðni Halldórsson formaður LH.

Hestamannafélagið Sleipnir hlaut æskulýðsbikar LH 2021 á formannafundi LH. Þessi eftirsótti bikar er afhentur því félagi sem skara hefur þótt fram úr í æskulýðsstarfi á árinu og hefur verið afhentur frá því 1996 og velur æskulýðsnefnd LH handahafa bikarsins hverju sinni.

Sleipnir hefur á árinu lagt mikinn metnað í starf sitt og afar ánægjulegt að sjá hvað þau hafa náð að afreka mikið, sérstaklega þegar horft er til þess ástands sem ríkt hefur síðasta starfsár. Félagið er með elstu félögum landsins og hefur verið með mjög virkt starf til margra ár sem sést vel þegar horft er til árangurs ungra félagsmanna á keppnisvellinum en félagið á meðal annars fulltrúa í U21 árs landsliðinu. Félagið telur ríflega 600 félagsmenn og var stofnað 1929. 

Á síðasta starfsári buðu þau upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa og byrjuð starfið sitt strax á haustmánuðum og er starfið þeirra orðið heils vetrarstarf. Auk ýmissa reiðnámskeiða buðu þau upp á reiðtygjaþrif, hestanuddnámskeið, spilakvöld, teymdu undir krökkum á 17. júní, plokkuðu rusl af reiðvegum næst félagins sínu á plokkdeginum og fóru í hestaferð. Einnig fóru þau af stað með félagshesthús í samstarfi við sveitafélagið sitt og voru í samstarfi við framhaldsskóla um reiðkennslu með nemendum á hestabraut.

Til hamingju Sleipnir!