Gert verði ráð fyrir hestaíþróttum í nýrri þjóðarhöll

Stjórn Landssambands hestamannafélaga hefur sent frá sér bréf þar sem óskað er eftir því að ráð verði gert fyrir hestaíþróttum við byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardal.  

Landssamband hestamannaféaga er fjórða fjölmennasta sérsambandið inna ÍSÍ en hestaíþróttin er ein fárra íþróttagreina sem ekki hefur aðgang að löglegum keppnisvelli innanhúss. Ljóst er að það stendur íþróttinni verulega fyrir þrifum og hamlar framgangi þessarar stóru íþróttagreinar.

Í tillögum framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg. Með það í huga frá upphafi hönnunar ætti að vera hægt að koma fyrir keppnisgólfi fyrir hestaíþróttir svo keppa megi á löglegum keppnisvelli innanhúss. Mörg dæmi eru um slíkt erlendis og má nefna Icehorse festival í Danmörku þar sem þú sundir áhorfenda fylgjast ár hvert með stærsta innanhúsmóti heims í íslandshestaíþróttum í fjölnota sýningarhöll.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar kemur fram að ný þjóðarhöll mun umbylta umgjörð í kringum landsliðsfólk í fjölmörgum íþróttagreinum og að þjóðarhöllin verði fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði. Í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur eins og áður segir fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg. 

Stjórn Landssambands hestamannafélaga gerir þá sjálfsögðu kröfu að gert verði ráð fyrir hestaíþróttinni í nýrri þjóðarhöll þegar hugað verður að hönnun gólfs, aðkomu og aðstöðu fyrir hesta og hestakerrur, einnig í rekstrar- og fjárhagsáætlun sem og þegar hugað verður að framtíðarskipulagi og tímatöflum hallarinnar.

Bréf þetta er sent á forsætisráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, framkvæmdanefnd um Þjóðarhöll, ÍSÍ, ráðherra, borgarstjóra og fjölmiðla.

 Stjórn Landssambands hestamannafélaga vonast eftir jákvæðum viðbrögðum og býður fram aðstoð og þá krafta sem nýtast kunna við hönnun og skipulagningu hvað þetta varðar svo nýja þjóðarhöllin megi nýtast öllum stærstu íþróttagreinunum.