Bláa Lónið einn af aðalstyrktaraðilum LH

Fulltrúar Bláa Lónsins og LH við undirritun samningins. Frá vinstri: Helga Árnadóttir, framkvæmdastj…
Fulltrúar Bláa Lónsins og LH við undirritun samningins. Frá vinstri: Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Bláa Lóninu, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, Berglind Karlsdóttir framkvæmdastjóri LH og Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar LH.

Bláa Lónið hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum landsliðs Íslands í hestaíþróttum undanfarin ár. Kristinn Skúlason formaður landsliðsnefndar Landsambands hestamannafélaga (LH) og Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins undirrituðu fyrir skemmstu endurnýjaðan styrktar- og samstarfssamning til 2025 eða fram yfir næstu tvö heimsmeistaramót. Bláa Lónið verður því áfram einn af aðalstyrktaraðilum LH.

„Bláa Lónið hefur um áratuga skeið verið ein þekktasta birtingarmynd hinnar hreinu og einstöku íslensku náttúru. Að sama skapi má segja að íslenski hesturinn sé ein sterkasta táknmynd lands og þjóðar enda einstakur á sínu sviði,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónins. „Það fer því einkar vel á samstarfi þarna á milli og við hjá Bláa Lóninu erum stolt af því að halda áfram stuðningi okkar við Landsamband hestamannafélaga og styðja þannig við bakið á því öfluga starfi sem þar er unnið, og það ekki síst við hið óeigingjarna barna- og unglingastarf sem LH sinnir.“

Kristinn Skúlason, formaður landsliðsnefndar LH, tekur undir orð Gríms og segir stuðning Bláa Lónsins afar mikilvægan enda er Heimsmeistaramót í Hollandi í sumar þar sem landslið Íslands í hestaíþróttum ætlar sér stóra hluti.

„Íslenski hesturinn og Bláa Lónið eru órjúfanlegir þættir íslenskrar náttúru og eru hvort um sig framúrskarandi landkynningar með sterkt og mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn,“ segir Kristinn. „Þessi samningur er til fimm ára og það er gott bakland fyrir það starf sem framundan er, bæði Íslandsmót og aðrir hestaíþróttaviðburðir á vegum LH hérlendis og svo Norðurlandamót og Heimsmeistaramót. Landsliðsnefnd og stjórn LH eru afar þakklát fyrir stuðninginn því hann gerir okkur enn betur í stakk búin til að takast á við komandi verkefni þar sem markið verður sett hátt sem endranær.“